142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[13:56]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur, til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

Þar stendur að með þessu frumvarpi séu lagðar til breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra sem fela í sér aukin bótaréttindi elli- og örorkulífeyrisþega með hærri greiðslum úr ríkissjóði. Að auki sé tilgangur frumvarpsins einkum sá að afturkalla þær kerfisbreytingar sem gerðar voru í aðhaldsskyni á árinu 2009 á bótaréttindum lífeyrisþega.

Breytingar á almannatryggingum er flókið og margþætt verkefni sem snertir hagsmuni og velferð fjölda fólks. Samhljómur er um að nauðsynlegt sé að einfalda kerfið og auka gagnsæi svo að öllum þeim sem það þurfi að nýta séu ljós réttindi sín á hverjum tíma, auk þess sem tryggja þarf að samspil almannatrygginga, lífeyrissjóðstekna og annarra tekna sé réttlátt og skilvirkt.

Það er í sjálfu sér ánægjuefni að bæta eigi kjör elli- og örorkulífeyrisþega með auknum framlögum til almannatrygginga eins og áætlanir fyrri ríkisstjórnar gerðu ráð fyrir og því ber að fagna eins og fram kemur í áliti minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Því er þó ekki að leyna að um leið vakna ákveðnar spurningar, bæði er varða fjárhagslega stöðu ríkissjóðs og ekki síður fyrir þá sem málið snertir, þ.e. bótaþega.

Það var ekki að ástæðulausu sem ákveðið var að skerða bótaréttinn, það eigum við að vita sem hér sitjum. Staða ríkissjóðs var afar slæm, eins og alþjóð veit, eftir hið alræmda bankahrun haustið 2008. Bregðast þurfti við miklu tekjufalli og það tóku allir á sig byrðar. Þetta var ein leiðin og ég er nokkuð sannfærð um að ekkert okkar vildi fara hana en það var úr vöndu að ráða.

Virðulegi forseti. Við lestur þessa frumvarps sem og umsagnar fjármála- og efnahagsráðuneytis og annarra umsagna og umfjöllunar um málið verður ljóst að þær breytingar sem boðaðar eru hafa verulega takmarkaða þýðingu fyrir þá einstaklinga sem þurfa mest á leiðréttingu að halda. Í frumvarpinu er rætt um aukin bótaréttindi fyrir aldraðra og öryrkja, en hverjir eru það helst í þeim hópi sem þess njóta ef þetta frumvarp nær fram að ganga?

Í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt útreikningum Tryggingastofnunar munu breytingar frumvarpsins einkum hafa áhrif á tekjur lífeyrisþega sem hafa einhverjar aðrar tekjur en bætur almannatrygginga og er áætlaður ávinningur af breyttum bótaréttindum meiri eftir því sem tekjur lífeyrisþega eru hærri. Ástæða þess er sú að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu felast ekki í hækkun fjárhæða einstakra bótaflokka heldur fyrst og fremst í minni tekjutengingu og hækkun frítekjumarka gagnvart öðrum tekjum.“

Það er einmitt þetta sem við erum að fjalla um. Það er það sem er áhersla okkar í minni hlutanum að þetta felst ekki í hækkun þessara einstöku bótaflokka heldur minni tekjutengingu fyrst og fremst. Það er vel í sjálfu sér en hefði ekki átt að vera í forgangi. Það er það sem vekur undrun á þessu sumarþingi og að mínu viti er ríkisstjórnin að ganga rangan veg þegar kemur að forgangsröðun innan þessa málaflokks.

Einungis stendur til að kalla til baka tvær kerfisbreytingar af sex. Ekki hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra hvenær eða hvort hún og hennar ríkisstjórn ætla að afnema eða fella úr gildi hinar fjórar skerðingarnar líka. Það kom fram í máli framsögumanns meiri hluta hér áðan að halda ætti áfram og leggja fram nýtt mál í haust en að öðru leyti var það ekki útskýrt.

Þær tvær leiðir sem hér um ræðir eru í fyrsta lagi hækkun frítekjumarka vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega þar sem áhrif annarra tekna á greiðslur frá almannatryggingum minnka frá því sem nú er. Í annan stað er lagt til að lífeyrissjóðstekjur skerði ekki lengur grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega. Vert er að vekja athygli á því, og það kemur einnig fram í umsögn Öryrkjabandalagsins, að eitt af því sem fram kemur í stjórnarsáttmála, og hér er ekki lagt til, er að breyta frítekjumörkum vegna fjármagnstekna. Ekki er verið að leiðrétta skerðingarhlutfall tekjutryggingar og ákvörðun um skerðingu krónu á móti krónu á sérstakri framfærsluuppbót er ekki breytt. Helsta baráttumál öryrkja, sem fram kemur í umsögn þeirra um málið, um að bætur haldist í hendur við verðlag eða leiðréttingu á afnámi á skerðingu grunnlífeyris vegna lífeyrissjóðstekna, er ekki mætt.

Ljóður er á og kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu að ekki hafi verið haft samráð við neina aðila utan ríkiskerfisins við samningu frumvarpsins. Það er miður því að eins og komið hefur fram í máli hv. þingmanna var náið samstarf milli stjórnmálaflokka og heildarsamtaka vinnumarkaða og annarra er málið varðaði í tíð síðustu ríkisstjórnar um lífeyrismál undanfarin ár þar sem horft var til mikilvægis samspils almannatrygginga og annarra þátta.

Virðulegur forseti. Í umsögnum um frumvarpið koma einnig fram veruleg vonbrigði yfir því að hér sé verið að ganga gegn þeirri heildarendurskoðun á lögum um almannatryggingar og félagslegan stuðning sem unnið hefur verið að um margra ára skeið og breið samstaða var um meðal fulltrúa þingflokka og hagsmunaaðila í vor, eins og ég sagði áðan. Talað er um að breytingarnar gangi alfarið gegn þeim hugmyndum sem ríkjandi hafa verið um nauðsyn þess að einfalda og skýra almannatryggingakerfið og geri enn erfiðara en nú er að vinda ofan af þessu margflækta tryggingakerfi.

Þeir lífeyrisþegar sem þurfa að reiða sig eingöngu á tekjur almannatrygginga eða hafa lífeyrissjóðstekjur undir 215 þúsund á mánuði eða lágar atvinnutekjur hafa lítinn sem engan ávinning af boðuðum breytingum. Samkvæmt tölum frá Tryggingastofnun eru elli- og örorkulífeyrisþegar ríflega 46 þúsund en breytingin mun samkvæmt athugasemdum við frumvarpið hafa áhrif á tekjur um 7 þúsund þessara lífeyrisþega um 15%.

Í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytis kemur fram, með leyfi forseta:

„Þannig munu ellilífeyrisþegar sem hafa á bilinu 300–400 þús. kr. í heildartekjur fá hækkun sem nemur í kringum 16–22 þúsund að meðaltali á mánuði en þeir sem hafa heildartekjur 250 þúsund eða lægri fá allt frá því að fá ekki neitt eða upp í 2 þús. kr. sem meðalhækkun.“

Virðulegi forseti. Ég held að flest okkar taki undir þau sjónarmið sem fram koma í flestum þeirra umsagna sem nefndinni bárust. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir, með leyfi forseta, að það sem búi að baki hækkun frítekjumarks gagnvart atvinnutekjum sé að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku aldraðra. Áfram segir:

„Sama er að segja um þau sjónarmið sem búa að baki ákvæði um að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum skuli ekki skerða elli- og örorkulífeyri (grunnlífeyri). Jafnframt má taka undir að það sé mikilvægt, og raunar grundvallarforsenda þess að sátt ríki áfram um skylduaðild að lífeyrissjóðum hér á landi, að þeir einstaklingar sem hafa verið á vinnumarkaði njóti betri lífeyrisréttinda með því að greiða hluta atvinnutekna sinna í lífeyrissjóð en væri ef þeir hefðu verið utan vinnumarkaðar.“

Þetta kom til umræðu hér áðan og ég held að við séum öll sammála um að það þurfi að vera ávinningur af því að greiða í lífeyrissjóð.

Ýmsir hafa goldið varhuga við tillögu um lagabreytingar á starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins, sem varða leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu stofnunarinnar og eðlilegt eftirlitshlutverk, og að starfsemi hennar eigi að lögfesta. Ég tel það því rétt, eins og kemur fram í breytingartillögu meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar, að fresta þessum lið og skoða betur.

Mig langar þó að vekja athygli á því að það kom fram í máli Tryggingastofnunar að erfitt væri að framkvæma slíka breytingu á miðju ári. Það tæki allt upp undir þrjár vikur að breyta í kerfinu og það kom líka fram að nauðsynlega fjármuni vantaði til að breyta kerfinu og að kynna þessa breytingu fyrir bótaþegum.

Sem fyrrverandi sveitarstjórnarkona hlýt ég að taka undir athugasemdir Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem fram kemur, með leyfi forseta, að brýnt sé „að koma á skilvirkri upplýsingamiðlun milli Tryggingastofnunar, Vinnumálastofnunar og félagsþjónustu sveitarfélaganna, svo stemma megi stigu við tvígreiðslu eða útgreiðslu bóta og fjárhagsaðstoðar á grundvelli rangra, villandi eða ófullnægjandi upplýsinga.“

Þeir krefjast þess að fá heimild til samkeyrslu skráa og telja að það mundi vega þungt í þessum efnum, en sambandið styður þó í grunninn það markmið frumvarpsins, eins og fram kom hjá öðrum aðila hér áðan, að almenningur njóti þess að greiða í lífeyrissjóð.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Hætta er hins vegar á því að ef frumvarpið verður að lögum dragi úr því svigrúmi sem stjórnvöld hafa til að knýja í gegn frekari umbætur á almannatryggingakerfinu.“

Það er það sem við höfum kannski helst verið að ræða hér, það eru áhyggjur okkar og mjög margra umsagnaraðila af því að þetta verði okkur dýrara þegar upp er staðið.

Í frumvarpinu sem lagt var fram síðastliðið vor af fyrrverandi velferðarráðherra, og er lagt aftur fram nú hér á þessu sumarþingi, er gert ráð fyrir að sameina í ein lög rétt til bóta og aðstoðar vegna elli, skertrar starfsgetu, andláts eða framfærslu barna með það að markmiði að gera lögin einfaldari og skýrari en núgildandi löggjöf. Þetta eykur mjög gagnsæi og gefur betri yfirsýn yfir réttindi einstakra hópa sem er vel.

Í frumvarpinu eru lagðar til gagngerar breytingar á bótakerfi ellilífeyrisþega þar sem fjórir bótaflokkar verða meðal annars sameinaðir í einn með einu skerðingarhlutfalli gagnvart öllum tekjum. Breytingin er vissulega viðamikil en einfaldar bótakerfi ellilífeyrisþega til muna, en í frumvarpinu er líka gert ráð fyrir innleiðingu í áföngum næstu fjögur árin.

Virðulegi forseti. Mér finnst afar mikilvægt sem konu að vekja athygli á því sem fram kemur í umsögn Femínistafélags Íslands þar sem sagt er að eðlilegra hefði verið að hækka grunnlífeyri almannatrygginga, sem hefði nýst fleirum, en að hækka frítekjumark þeirra sem hafa atvinnu- og fjármagnstekjur. Það er því algjörlega ómögulegt að vera sammála þeirri fullyrðingu sem fram kemur í greinargerð frumvarpsins að það hafi ekki bein áhrif á jafnrétti kynjanna.

Í umsögn Femínistafélagsins eru áhugaverðar niðurstöður rannsókna þar sem fram kemur, og flest okkar hér inni vitum, með leyfi forseta:

„… að konur hafa unnið sér inn minni tekjur hjá lífeyrissjóðum og með viðbótarlífeyrissparnaði en karlar. Þær þurfa því að reiða sig meira á ellilífeyri og réttindi almannatrygginga. […] Hugsanlega einfaldasta og minnst umdeilda leiðin væri að hækka grunnlífeyri og tekjutryggingu og uppbætur til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar þannig að öruggt væri að lífeyrisþegar gætu framfleytt sér á þeim greiðslum. Sú leið myndi í grunninn vera kynhlutlaus þar sem hún kæmi þeim sem hefðu lægstar tekjurnar vel, burtséð frá kyni. Í raun væri þetta þó jafnréttisaðgerð þar sem konur eru meiri hluti þeirra sem að reiða sig á grunnlífeyri og uppbætur vegna lítilla eða engra tekna frá lífeyrissjóðum. Slík aðgerð myndi þar af leiðandi auka efnahagslegt jafnrétti kynjanna.“

Vert er að vekja athygli á því að konur eru nú um 58% þeirra sem fá greiddan ellilífeyri og um 62% þeirra sem fá greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun.

Í umsögn Jafnréttisstofu er hvatt til þess að yfirlýsing um tilgang hækkunarinnar á frítekjumarki verði endurskoðuð og þar eru lagðar fram gagnrýnar spurningar, með leyfi forseta, sem ég vil hér endurtaka:

„Eru til upplýsingar um það hversu lengi konur vinna almennt og hversu lengi karlar vinna almennt? Eru til upplýsingar um það hvort konur og karlar vilja vinna lengri starfsævi en þau gera nú? Eru þetta helstu rökin fyrir hækkun frítekjumarks, þ.e. að hvetja fólk til að vinna enn þá lengur?“

Við þessu væri gott að fá svör því að það er jú þannig að þó að við viljum öll geta unnið eins lengi og mögulegt er þá er rétt að halda því til haga að það er fleira sem getur aukið lífsgæði en að lengja starfsævina.

Virðulegi forseti. Sem nefndarmaður í fjárlaganefnd get ég ekki annað en rætt kostnað ríkissjóðs við frumvarpið. Áætlaður kostnaður í ár er um 850 milljónir og um 4,6 milljarðar á því næsta en gæti hækkað eins og fram kemur í umsögn fjármálaráðuneytis. Hæstv. ráðherra sagði hér í umræðu á dögunum að hún treysti sér til að mæla fyrir slíku frumvarpi þrátt fyrir að í umsögn fjármálaráðuneytisins kæmi fram að þetta bryti í bága við núgildandi fjárlög og afkoma ríkissjóðs mundi versna að sama skapi.

Þá verð ég að spyrja hvort hæstv. ráðherra treysti sér til þess að segja þingheimi hvar hún hyggst fá fjármuni til að brúa þetta bil. Það hefur ekki komið fram hér í umræðunni, af hálfu forustumanna ríkisstjórnarinnar, að staðan sé svo góð og aukinheldur eru hér lögð fram tekjulækkandi frumvörp hvert á fætur öðru. Hvar á að afla tekna og hvar ætlar hæstv. ríkisstjórn að skera niður? Boðaður hefur verið flatur 1,5% niðurskurður. Dugar hann til til að brúa fjárlagagatið? Það stækkar hér með hverjum degi vegna framkominna frumvarpa.

Það er því ekki nema von, og ég skil það mætavel, að mönnum hrjósi hugur við því að koma saman tekju- og fjárlagafrumvarpi og leggja það fram á tilskildum tíma.

Hér var rætt áðan um að standa við loforð. Í Morgunblaðsgrein sem Lilja Þorgeirsdóttir er höfundur að, en hún er framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands, kemur fram, með leyfi forseta:

„Forsætisráðherra tilkynnti að standa skyldi við gefin loforð. Í kvöldfréttum RÚV 25. maí sl. sagði hann að strax á sumarþingi myndu leiðréttingar á tekjutengingum og réttindaskerðingum lífeyrisþega sem tóku gildi 1. júlí 2009 verða að veruleika.“

Síðar segir:

„Samkvæmt því virðast stjórnvöld ekki ætla að standa við gefin loforð strax á sumarþingi nema að hluta til. Notast er við smáskammtalækningar sem nýtast ekki þeim sem eru með lágar tekjur.“

Þetta er umsögn þeirra sem þar koma að máli. Ég tek undir það að þetta kemur á óvart.

Virðulegi forseti. Ég átti þess kost að sitja fund velferðarnefndar á dögunum og þar komu margir gestir sem flestallir voru sammála um að þeir sem minnst hafa, ellilífeyrisþegar og öryrkjar, eru ekki þeir sem njóta góðs af þessu frumvarpi og vekur sú forgangsröðun furðu flestra.

Einnig var það almenn skoðun að starfshópurinn sem fyrrverandi hæstv. velferðarráðherra skipaði í apríl 2011 til að vinna að lokafrágangi heildarendurskoðunar almannatryggingalöggjafarinnar ætti að halda áfram vinnu sinnu og á því ætti framtíðarhugsunin um almannatryggingar að byggja.

Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hefur sagt að hún sé hvergi nærri hætt og trúi ég því að hún leggi þetta frumvarp fram af góðum hug. En eftir stendur að flestallir sem skiluðu inn umsögnum telja þetta ekki bestu forgangsröðunina, þá leið sem hér er verið að fara, og að horfa eigi á heildarmyndina til framtíðar. Það er það sem minni hlutinn leggur áherslu á.

Við gleðjumst yfir hverju skrefi sem stigið er til að bæta tekjur þessa hóps sem í sjálfu sér hefur minnst í samfélaginu og þurfti að taka á sig byrðar eins og aðrir. Það breytir því ekki að við hefðum gjarnan viljað forgangsraða með öðrum hætti og erum ekki ein um það. Eins og ég las hér upp áðan kemur það fram, bæði í umsögnum um málið sem bárust nefndinni og í áðurnefndri blaðagrein — og það kom líka fram hjá Lilju Þorgeirsdóttur, þegar hún kom á fund nefndarinnar, að hún fengi mörg símtöl frá öryrkjum sem byggjust við því að fá hækkun strax í sumar, en það gerist ekki, ekki samkvæmt þessu frumvarpi, því miður. Við höfum viljað forgangsraða þannig að þeir sem minnst hafa hefðu fengið fyrst, með þeim hætti hefði verið farið inn í þetta, í staðinn fyrir að byrja á þeim sem mest hafa í þessum geira, þó að lítið sé.