142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[14:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir ágæta yfirferð yfir málið. Hún sagði nokkrum sinnum að þeir sem ekki ættu rétt í lífeyrissjóðum væru berskjaldaðir.

Þá vil ég spyrja hana: Hverjir eru það sem ekki eiga rétt í lífeyrissjóðum? Árið 1974 voru sett lög frá Alþingi um að allir launþegar skyldu greiða í lífeyrissjóði, allir. Árið 1980 var það víkkað út á sjálfstæða atvinnurekendur líka, að allir Íslendingar sem stunda vinnu skuli greiða í lífeyrissjóð. Það þýðir að í 33 og upp í 39 ár hafa Íslendingar verið skyldaðir til að greiða í lífeyrissjóð.

Nú er ákveðinn hluti þjóðarinnar utan vinnumarkaðar, sem eru fatlaðir. Gert hefur verið mikið átak í að laga stöðu þeirra þó að mikið verk sé enn óunnið, þeir eru á vissan hátt sér á báti. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvaða fólk er það sem stendur fyrir framan Tryggingastofnun, hefur verið á vinnumarkaði og á ekki rétt? Gæti það verið fólk sem hefur búið í útlöndum sem hefur valið erlent velferðarkerfi alla sína starfsævi, kemur svo til Íslands — og þá er það spurningin: Eigum við að horfa mikið til þess að það hafi þá ekki tryggt sig í útlöndum og stendur berskjaldað fyrir framan Tryggingastofnun? Eða er þetta sá hópur manna sem ég sem formaður Landssambands lífeyrissjóða á sínum tíma vissi að borgaði ekki í lífeyrissjóð þó að hann ætti að gera það? Það voru 40 þúsund manns. Við vissum að á vinnumarkaði voru 40 þúsund manns sem ekki borguðu í lífeyrissjóð. Þá spyr maður það fólk: Hvað gerði það við iðgjöldin? Því að væntanlega hefur það fengið iðgjöldin greidd út, þessi 10% sem hinir greiða, og spurningin er sú: Hvað gerði það við iðgjöldin og af hverju er það svona berskjaldað fyrir framan Tryggingastofnun?