142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[14:18]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að svara fyrir þá sem borguðu ekki í lífeyrissjóðina af einhverjum annarlegum ástæðum sem þingmaðurinn var hér að telja, þ.e. greiddu ekki það sem þeim bar að greiða. En spurningin um það hverjir það eru sem fá ekki bætur — hann svaraði því eiginlega sjálfur, hv. þm. Pétur Blöndal, og þakka ég honum fyrir þessa fyrirspurn. Það eru sérstaklega heimavinnandi konur, það kom fram í umsögnum sem fylgdu frumvarpinu inn í nefndina. Þær eru enn til í töluvert miklum mæli og við vitum að þær eru fjölmennasta stéttin, heimavinnandi konur, sem hafa ekki notið lífeyrisréttinda, þ.e. voru ekki úti á vinnumarkaðnum fyrir þennan tíma og enn er til fólk sem er bótaþegar og hafa ekki farið út á vinnumarkaðinn, öryrkjar, eins og hér var réttilega nefnt.

Þetta er stór hópur fólks og það er til dæmis það sem Öryrkjabandalagið er að gagnrýna í umsögn sinni. Ekki er verið að koma til móts við þann hóp með þessum aðgerðum. Það er því fyrst og fremst þessi hópur og ef þingmaðurinn les nú nefndarálit minni hluta nefndarinnar er ágætur listi yfir ellilífeyrisþega með lífeyristekjur og svo atvinnutekjur þar sem er farið yfir þetta. En það er þessi hópur sem við erum enn þá með sem nýtur ekki þessa réttar, þ.e. lífeyrisréttar, hann er enn til staðar. Meðan svo er þurfum við að taka tillit til hans.