142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[14:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Upp úr 1950 til ársins 1970 verður ákveðin þjóðfélagsbreyting á Íslandi. Það þykir ekki lengur eðlilegt að karlmenn séu fyrirvinnur eingöngu heldur fara konur í auknum mæli út á vinnumarkað. Lausleg könnun okkar hjá Landssambandi lífeyrissjóða á sínum tíma leiddi í ljós að konur fæddar eftir 1955 væru velflestar eða ættu að vera með lífeyrisréttindi vegna þess að þær væru á vinnumarkaði. Oft og tíðum, því miður, með mikið lægri laun. En það er annað mál, þær eiga að eiga lífeyrisrétt.

Ég spyr því enn: Hverjir eru það sem standa fyrir framan Tryggingastofnun, hafa verið á vinnumarkaði, eftir að lífeyrissjóðirnir hafa starfað í 33 ár, hverjir eru það sem ekki hafa greitt í lífeyrissjóð og af hverju ekki? Það getur vel verið að lífeyrisréttindin séu mjög lítil og rýr og sérstaklega varðandi öryrkja, það kemur í ljós að þeir hafa sumir hverjir greitt af mjög lágum launum í lífeyrissjóð. En að einhver sé ekki með nein réttindi, það finnst mér vera fullmikil fullyrðing þegar við undanskiljum þá sem eru fatlaðir, sem eru eitthvað 4 til 5% af þjóðinni, ef við göngum út frá reynslutölum annarra þjóða.