142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[14:21]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel mig nú ekki geta svarað þessu betur en ég gerði áðan. En ég vek athygli þingmannsins á rannsókn sem vitnað er í í umsögn Femínistafélagsins, sem var mjög fagleg og vel gerð. Þar var meðal annars upplýst það mál sem hann nefndi, þ.e. þetta með minni tekjur kvenna hjá lífeyrissjóðum þar sem kemur fram að þær reiða sig meira á ellilífeyri, og réttindi almannatrygginganna þannig, en hafa ekki tekjur af lífeyrissjóðum.

Ég tel mig ekki hafa sagt mörgum sinnum — ég þarf nú að lesa ræðu mína aftur ef hann telur mig hafa fullyrt það mörgum sinnum — að ég hafi sagt að það væru einhverjir sem hefðu engan rétt. En það er alveg klárt mál að þetta kemur niður á konum, þetta frumvarp, það kemur niður á þeim sem hafa minna. Um það erum við kannski svolítið að takast á, að konur reiða sig mest á ellilífeyrinn en eru ekki með háar lífeyrissjóðstekjur og um það fyrst og fremst snýst gagnrýni okkar á frumvarpið.