142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[14:23]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmanni varð tíðrætt um þá vinnu sem fram fór varðandi endurskoðun á almannatryggingakerfinu þar sem sátu í sameiningu fulltrúar atvinnulífsins og launþega og jafnframt fulltrúar úr öllum stjórnmálaflokkum. En fjármálaráðuneytið kom ekki að þeirri vinnu og heldur ekki fulltrúar öryrkja, þ.e. þeir sögðu sig frá þeirri vinnu.

Telur hv. þingmaður að það frumvarp sem lagt var fram af þáverandi ráðherra, Guðbjarti Hannessyni, á síðasta þingi og svo á þessu sumarþingi, sé fullbúið? Telur hv. þingmaður það raunhæft að frekar hefði verið farið í að lögfesta það frumvarp en það sem við erum hér með í umfjöllun? Telur hv. þingmaður það ekki vera galla á málinu að Öryrkjabandalagið kom ekki að vinnunni undir lokin og að málið hefur ekki verið fjármagnað?