142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[14:24]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að svara því sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir spurði um og þakka henni fyrir það — af því að lokaorð mín voru einmitt á þá lund að halda skyldi áfram vinnu í nefndinni sem velferðarráðherra setti á laggirnar og var búin að skila skýrslu um þessa heildarendurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni. Hún er ekki fullbúin en það er ástæða til þess, og hefði hugsanlega verið hægt, eins og hér hefur komið fram, að ná saman um að klára hana, mál sem var búið að vinna þó þetta mikið, frekar en að koma hér með eitthvað út úr frumvarpinu sem er ekki beint í þeirri forgangsröð og í upplegginu, eins og þar var lagt til.

Mér þykir það miður líka að Öryrkjabandalagið skyldi hafa sagt sig frá þessu. Ég þekki ekki þá sögu, ég játa það, hvers vegna það gerðist. Það er að sjálfsögðu markmið okkar að fá Öryrkjabandalagið að borðinu aftur, það er ekki spurning.

Ég held líka að aðkoma fjármálaráðuneytisins að öllum svona stórum málum eigi að vera til staðar, það á ekki að þurfa að spyrja að því eða óska eftir því, það á að vera þannig. Hvers vegna það var ekki, það veit ég ekki heldur.

Að sjálfsögðu, eins og ég sagði í lokaorðum mínum, og kom fram í nefndinni sem við hv. þingmaður sátum báðar í og hlustuðum á, vildi fólk almennt sem þar kom og hefur hagsmuna að gæta að haldið yrði áfram með vinnu þessarar nefndar, á henni byggt, og það er það sem ég er fyrst og fremst að leggja til. Það að frumvarpið sem var lagt fram á síðasta þingi og er búið að leggja hér fram aftur — ég hefði verið tilbúin til að vinna í því á þessu þingi og tel að við hefðum komist lengra áleiðis með það.