142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[14:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. nefnd fyrir vinnu að þessu mikilvæga máli og hæstv. ráðherra fyrir að hafa loksins flutt það á sumarþinginu. Engum blöðum er um það að fletta að nokkur ljón voru í vegi ráðherrans og trúlega var lagt af stað með þetta mál ögn gildara en það sem nú liggur á borðinu. Það stoppaði jú lengi í kostnaðarmati í fjármálaráðuneytinu og síðar í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, sem kunnugt er.

Hér er þó verið að bæta nokkuð í ellilífeyri til ákveðinna hópa og það er þakkarvert og auðvelt út af fyrir sig að styðja það. Þó verður að segjast eins og er að verið er að byrja á kolröngum enda í því að létta af þeim skerðingum sem allir flokkar voru sammála um að þyrfti að létta af og væri forgangsverkefni á þessu kjörtímabili að gera, hvort sem þeir skipa stjórn eða stjórnarandstöðu.

Hér er fyrst og fremst verið að leggja áherslu á þá hópa sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi barist fyrir í þessum málaflokki — annars vegar fyrir þeim sem hafa nokkuð umtalsverðar tekjur úr lífeyrissjóði og hins vegar fyrir þeim sem hafa atvinnutekjur en í því tilfelli eru það oftar en ekki aðilar sem eru með félög á sínum vegum sem þeir hafa atvinnutekjur af, rekstrarfélög eða félög um eignir sínar, og eru þess vegna kannski ekki endilega í hópi þeirra sem verst eru settir eða mest þurfa á því að halda að skerðingunum sé af þeim létt.

Þó að ástæða sé til að þakka fyrir skref í rétta átt verður um leið að segja að hér er verið að byrja á vitlausum enda og á vitlausum hópum. Það er verið að efna það sem hefur verið sérstakt áhugamál Sjálfstæðisflokksins í þessum málaflokki, hinir tekjuhærri hópar aldraðra hafa löngum verið áhersluatriði þeirra í almannatryggingunum, miklu síður aðrir hópar aldraðra eða öryrkjar. Þeir hafa jafnan lagt mikla áherslu á tekjuhærri hóp ellilífeyrisþega og þá sem eru með atvinnutekjur og þá einatt af eigin rekstri eða eigin eignum. Þetta vita þeir sem hafa fylgst með þessari umræðu lengi.

Ég held að við höfum kannski verið að vonast eftir því að aðrir hópar væru hér í forgangi og að þær áherslur sem Framsóknarflokkurinn hafði fyrir kosningar yrðu fyrirferðarmeiri, þeir hópar sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt áherslu á. Því er ekki að leyna að í hægri stjórninni, sem nú er við völd á Íslandi, eru ekki alveg sömu áherslur hjá báðum flokkunum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Það eru öllu félagslegri áherslur hjá Framsóknarflokknum þrátt fyrir allt og hann hefur lagt heldur meiri áherslu en Sjálfstæðisflokkurinn á þá hópa sem verst eru settir. En þess sér kannski ekki mikinn stað í þeim áherslum sem eru í þessu frumvarpi þrátt fyrir að Framsóknarflokkurinn fari með það ráðuneyti sem málið flytur. Það er væntanlega bara niðurstaðan úr samningaviðræðum flokkanna að Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft sínar áherslur fram í þessu og Framsóknarflokkurinn kannski ekki haft erindi sem erfiði.

Við hljótum hins vegar að horfa til þess að aðeins eru nokkrir mánuðir liðnir af þessu kjörtímabili og haustþing er fram undan. Við hljótum að binda vonir við að skerðingunum verði létt af eins og lofað var á haustþinginu. Við verðum kannski að hafa skilning á því að ekki sé meira gert á þessu stutta sumarþingi. Ég held þó að þeir hópar sem hér er verið að grípa til aðgerða fyrir séu kannski ekki þannig staddir að þurft hafi að setja alveg sérstakan forgang á þetta hér á sumarþinginu, það hefði eins mátt leysa úr þessu á haustþinginu á annað borð og láta það bara gilda frá 1. júlí. En það er eins og með margt annað í málatilbúnaðinum hér á sumarþingi að í nokkuð mikið er ráðist fyrir fremur lítinn ávinning þegar upp er staðið.

Því að í sjálfu sér hefði þetta sumarþing getað staðið svo sem einn eða tvo daga þar sem kjörið hefði verið í nefndir og gengið frá þessum leiðréttingum og gerðar nauðsynlegar breytingar til að koma í veg fyrir að einhver dagsetningarmál tækju gildi 1. september, bæði hvað varðaði veiðigjald og virðisaukaskatt. Að því búnu hefði þing einfaldlega getað farið heim og menn farið að hefja vandaðan undirbúning að þeim málum sem ættu að koma hér inn í haust. En það hefur því miður ekki verið verklagið heldur hafa menn komið hingað inn með hvert málið á fætur öðru, bæði seint og málin vanbúin þannig að þurft hefur að vinna vikum saman í því að gera eitthvað úr málum sem þegar upp er staðið eru, fyrir utan gjafabréfið til LÍÚ, í raun hvorki fugl né fiskur, eða ekki af þeirri stærðargráðu að það skipti neinu máli hvort þau eru lögfest í júlí eða í september. Það gildir út af fyrir sig um þetta mál.

Þetta er þó það þeirra mála sem fram hafa komið á sumarþinginu sem sannarlega er jákvætt og hefur beinlínis í för með sér að ákveðinn hópur í landinu er betur settur eftir en áður og vissulega nær þetta ekki bara til hátekjufólks, það eru auðvitað lífeyrissjóðstekjur þarna sem fólk hefur sem eru það lágar í sjálfu sér að sá hópur þarf sannarlega á kjarabótum að halda. Það er þó ánægjuefni að hægt sé að stíga þetta skref núna, en við hefðum haft aðrar áherslur í þessu og lagt áherslu á þá hópa sem höllustum fæti standa til að auka jöfnuð í samfélaginu.

Það sem þó helst truflar mann við frumvarpið eins og það kemur fram — af því að það er um svo afmarkaðar breytingar og breytir í sjálfu sér ekki kerfinu, almannatryggingakerfinu, sem er allt of flókið og óskilvirkt eins og við þekkjum — eru áhyggjur af því að það gæti spillt því að það takist að endurskoða kerfið í heild sinni, að menn hafi það ekki lengur í hendi, þegar þeir hafa stigið þetta skref, hverju er úr að spila til að ná fram endurskoðun á kerfinu í heild sinni. Það vekur okkur til umhugsunar um það hversu óskaplega föst við erum í að stunda meirihlutapólitík og skipta alltaf um kúrs í hvert sinn sem kosið hefur verið til þings. Þetta gerum við miklu meira en þjóðirnar í kringum okkur og er það ein af ástæðunum fyrir þeirri átakastjórnmálahefð sem hér hefur þróast.

Á síðasta kjörtímabili gætti sannarlega, af hálfu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, viðleitni til að gera breytingu á. Þess vegna var í samstarfi allra flokka, í samstarfi við hagsmunasamtökin og í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, fulltrúa frá lífeyrissjóðunum og aðra þá sem að málum þessum koma, farið í mjög viðamikla endurskoðun á ellilífeyrinum og það var líka ætlunin að gera það á örorkulífeyrinum. Það urðu hins vegar deilur við Öryrkjabandalagið sem ollu því að þeir sögðu sig frá þessu ferli en hitt sem tókst var samstaða um endurskoðun á ellilífeyri, á öllu kerfinu; samstaða fulltrúa allra flokka í nefndinni, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og okkar hinna sem vorum við stjórnvölinn þá; samstaða með bæði verkalýðshreyfingunni og Samtökum atvinnurekenda; samstaða með lífeyrissjóðunum og samstaða með Landssambandi eldri borgara.

Þegar þessu var náð nú í vetur hélt ég að okkur hefði loksins tekist það sem fjölmargir flokkar höfðu talað fyrir í mörg herrans ár, að það væri mikilvægt að ná fram heildarendurskoðun á þessu kerfi og heildarendurskoðun sem einfaldaði það, auðveldaði það fyrir þá sem þurfa að sækja í þetta kerfi, bæði aldraða og öryrkja — auðvitað hefur líka verið eindreginn vilji til þess að einfalda örorkulífeyriskerfið. En að þetta hefði núna tekist hvað varðaði ellilífeyrinn þannig að allir flokkar stæðu að því, aðilar vinnumarkaðarins, lífeyrissjóðirnir og eldri borgarar og það væri þá bara mál sem kæmi hér inn í þingið, fengi þinglega meðferð og tæki einhverjum breytingum í þeirri meðferð eftir því sem menn átta sig á agnúum og yrði síðan að lögum.

En því er ekki að heilsa. Þegar alþingiskosningar hafa farið fram virðist það vera okkar pólitíska hefð að stjórnmálaflokkar, bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, sem hafa örfáum vikum áður staðið að þverpólitísku samkomulagi um tillögur í þessum málaflokki, fara bara frá því eins og vinnan hafi aldrei átt sér stað, eins og ekkert hafi verið sagt og ekkert hafi verið gert og þeir hafi aldrei staðið að einu eða neinu. Nú ætla þeir bara, gjörið svo vel og veskú, að keyra sína stefnu og sínar ákvarðanir og sína forgangsröðun og það er engin samráðsvinna, ekki fulltrúar allra flokka, ekki aðilar vinnumarkaðarins, lífeyrissjóðanna eða eldri borgara. Það er bara svona ráðherraræði, frumvarp frá ráðherranum um hvað honum finnst vera brýnast að gera núna. Meiri hlutinn keyrir það svo bara áfram hér í þinginu og þingið fer ekkert heim, eins og lýst hefur verið yfir, fyrr en búið er að afgreiða þessa ráðherraákvörðun.

Ég held að alveg óháð allri flokkapólitík þá sé þetta miður og ekki eftirbreytnivert. Ég held að við þurfum miklu meira á því að halda að fulltrúar ólíkra sjónarmiða setjist saman yfir mikilvæg úrlausnarefni, eins og einföldun á almannatryggingakerfinu, og nái þar sameiginlegri niðurstöðu, nái þar sameiginlegum skilningi með aðilum vinnumarkaðarins og standi síðan að þeim breytingum og að jafn mikilvægir hlutar samfélagsins, eins og ellilífeyririnn, geti þá staðið tryggilega um lengri tíma, óháð því hvaða ríkisstjórn er við völd í landinu hverju sinni. Það sé bara búið að leysa úr helstu ágreiningsefnum og síðan sé það hið pólitíska verkefni frá einu kjörtímabili til annars hvað menn ætla á hverjum tíma að setja af peningum inn í þetta kerfi. Menn geta þá tekist á um það á milli vinstri og hægri hvað eigi að setja mikið inn í þetta, hve mikla skatta eigi að leggja á til að setja inn í þetta, en að um kerfið sjálft, fyrirkomulag almannatrygginganna, og um grunnhugsunina í kerfinu, sé víðtæk sátt ólíkra flokka.

Þannig reyna menn að vinna í nágrannalöndunum og þannig reyndi hv. þm. Guðbjartur Hannesson, þá sem velferðarráðherra, að vinna í þessu efni. Ég hefði talið það miklu farsælla, bæði fyrir málaflokkinn og líka fyrir stjórnmálamenningu í landinu, að þau vinnubrögð hefðu haldið áfram í ráðuneytinu en ekki bara að ráðherrann ákveði hvaða atriði hann vilji setja í forgang og svo sé hann bara með einhverja þingmenn hér í þinginu sem keyri þá meirihlutaákvörðun í gegn og það eigi sér engan aðdraganda, sé ekki hluti af neinni stærri sýn, sé ekki neitt sem haft hefur verið samráð um eða aðilar allir staðið að.

Hitt á maður líka erfitt með að skilja hvernig stjórnmálaflokkar eins og Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn geta tekið þátt í svona vinnu með formlegum hætti og tilnefnt inn sína fulltrúa; farið í gegnum mikla rýni og marga fundi — ég sat í þessari vinnu sjálfur, lengi — tekist á um deiluefni, náð úrlausn, miðlað málum, mætt sjónarmiðum, staðið að niðurstöðu, skrifað undir hana og svo bara gert eitthvað allt annað nokkrum mánuðum síðar. Mér finnst það ekki vera til þess fallið að auka manni trú á að hér megi þróa og efla þverpólitíska samvinnu og samráð um mikilvæg málefni sem ég held þó að sé það sem við þurfum ekki hvað síst á að halda og sé það sem almenningur kallar eftir af okkar hálfu.

Ég verð líka að segja að ég hef nokkrar áhyggjur af því að aftur sé kominn svona forgangur sem ég man eftir frá fyrri öld, skulum við orða það, þegar þessir tveir flokkar voru líka í meiri hluta. Ég fæ ekki betur séð en að þessar breytingar — sem eru jákvæðar, ég ítreka það, og skref fram á við — ívilni fremur okkur körlum en konum. Mér sýnist að það sé nokkuð augljóst af því hvaða hópar eru undir að þetta sé, út frá sjónarmiðum um kynjaða hagstjórn, karlapólitík. Ég man það býsna vel, þegar ég var að byrja að starfa í Öryrkjabandalaginu á sínum tíma og kynntist þeim gamaldags og karllægu sjónarmiðum sem réðu ríkjum í almannatryggingakerfinu, að þá varð ég algjörlega undrandi.

Þá kynntist ég því fyrst að skipulag almannatrygginga var þannig að ef maður átti maka sem hafði einhverjar tekjur þá fékk maður bara nánast engan lífeyri. Maður fékk þetta, held ég, 15 þús. kr. á þeim tíma á mánuði. Maður þurfti að biðja maka sinn um að gefa sér fyrir fötum, bara brýnustu nauðþurftum, af því að maki manns var í vinnu. Hverjir voru það sem voru settir í þessa stöðu? Það voru fyrst og fremst konur. Konur sem áttu mann sem hafði einhverjar meðaltekjur og á þeim tíma var eiginlega enginn skilningur á því að þetta væri ósanngjarnt. Þetta þótti bara mjög sanngjarnt af stjórnmálamönnum í ýmsum flokkum og af kerfinu sem slíku.

En þegar við fórum áfram með þetta mál og rákum það til enda felldi Hæstiréttur Íslands að lokum þann merka dóm sem sagði alveg skýrt og ótvírætt að þannig mætti ekki ganga fram gagnvart fólki. Ekki mætti taka svo persónuréttindi af einstaklingum að þeir hefðu ekki lífsframfæri eða lífsbjörg, það einfaldlega stríddi gegn stjórnarskránni. Þessar óréttlátu skerðingar voru í framhaldinu, sem betur fer, aflagðar að hluta og síðan að fullu þegar við fórum í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og það kom í ljós að þeir sem fyrst og fremst höfðu ávinning af því voru konurnar. Þess vegna hefði maður kannski gjarnan viljað sjá forgangsröðun í þessum ráðstöfunum núna sem hefði ekki hallað svona á kynin eins og þetta gerir.

En ég árétta að þetta er skref fram á við, það er verið að setja aukna fjármuni í ellilífeyrinn en það hefði mátt forgangsraða öðrum hópum og sannarlega hefði mátt taka kjör öryrkja föstum tökum um leið. Ég hvet meiri hlutann sérstaklega til að samþykkja breytingartillögu minni hlutans um að fastsetja frítekjumark öryrkja sem nú er aðeins bráðabirgðaákvæði. Ég held að það sé einfalt sanngirnismál og eigi að vera útlátalaust fyrir meiri hlutann að fallast á þá breytingu og það sé til bóta. Ég vona að við höfum þroska til að samþykkja breytingartillögur og tillögur hvert frá öðru sem eru til bóta og ég mun fyrir mitt leyti samþykkja þetta mál.