142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[14:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ræðuna. Sem endranær þarf hann nú að hnjóða í LÍÚ í tengslum við eitthvert allt annað mál og svo talar hann um Sjálfstæðisflokkinn og fullyrðir að hann gæti tekjuhárra, fjármagnseigenda og annarra slíkra og einnig talaði hann um meirihlutapólitík sem væri óbreytt frá síðasta kjörtímabili. Mér þótti þetta allt miður vegna þess að ég átti von á því að breyting yrði með þessu þingi, að menn yrðu ekki svona mikið í sandkassaleik eða í skotgröfunum. Það er ekki bara meirihlutapólitík, það er líka minnihlutapólitík og mér finnst hv. þingmaður ekki fara vel í gang með hana.

Ég vil spyrja hv. þingmann, fyrst hann talaði um Sjálfstæðisflokkinn sem flokk sem gætti hagsmuna þeirra sem hefðu háar tekjur, ættu miklar eignir og annað slíkt: Af hverju eru fjármagnstekjurnar ekki inni í þessu? Einu sinni skertu þær lífeyri til helmings en núna skerða þær hann að fullu, það er ekki lagað. Hvernig stendur á því að Sjálfstæðisflokkurinn, sem gætir hagsmuna fjármagnseigenda, lagar þetta ekki? — Fyrir utan það að fjármagnstekjur eru yfirleitt neikvæðar að raungildi og þeir sem fá þær tekjur eru að tapa og svo er það skattlagt, hv. þingmaður stóð að því að tvöfalda skatta á neikvæðar fjármagnstekjur. Hvernig stendur á því, í ljósi þess sem hv. þingmaður heldur fram um varðstöðu Sjálfstæðisflokksins um fjármagnseigendur, að það fékkst ekki í gegn?