142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[14:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef hv. þm. Pétur H. Blöndal lítur svo á að það sé málefnaleg umræða að fara hér í ræðustól Alþingis og kalla mig fordómafullan verður hann að hafa skilgreiningar sínar á málefnalegri umræðu fyrir sjálfan sig. Ég held að það séu ekki margir sem deila því að svoleiðis sleggjudómar um starfsfélaga séu málefnalegir.

Um það sem við ræðum er það að segja að þeir sem eru á strípuðum bótunum fá ekki neitt í þessu máli. Það eru þeir sem eru með tekjur sem eru í forgangi og það lýsir forgangsröðun — það lýsir engum fordómum í garð Sjálfstæðisflokksins að fara í gegnum þá forgangsröðun, það eru bara þeir hópar sem betur eru settir sem eru í forgangi í leiðréttingunum. Engu að síður er hér um að ræða leiðréttingar og ég er búinn að segja að við styðjum það að þessir hópar fái þessar leiðréttingar. En við vonumst til þess að sjá leiðréttingar fyrir aðra hópa sem allra fyrst.

Það á svo að vera okkur í Framsóknarflokknum og Samfylkingunni til nokkurrar umhugsunar þegar langreyndur þingmaður Sjálfstæðisflokksins fer hér í ræðustól og lýsir því yfir að í þau ár sem Sjálfstæðisflokkurinn starfaði, tólf ár með Framsóknarflokknum og sex ár með Samfylkingunni, hafi hann ráðið Íslandi einn.