142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[15:12]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég tek undir með þeim fjölmörgu hv. þingmönnum sem hér hafa talað, og þá helst hv. þingkonu Freyju Haraldsdóttur, sem fór vel í gegnum það hvernig þetta allt getur verið. Ég verð að segja, nýkomin í velferðarnefnd, hef samt starfað að málefnum öryrkja áður, að þetta almannatryggingakerfi er eitthvað sem ég skil ekki. Og ég held að ég sé ekki ein um það.

Ég held í raun, og það er svona gantast með það, að það sé einn maður í velferðarráðuneytinu sem skilur almannatryggingakerfið. Það er náttúrlega ekki gott. Ég er ekki að gera lítið úr þekkingu hv. þingmanna og annarra, ég er að lýsa því hvernig þetta slær mig. Ég skil þetta ekki nógu vel.

Þegar við erum farin að vinna með eitthvert form eða kerfi sem er illskiljanlegt og erfitt í framkvæmd, kerfi sem er þannig að þeir sem þurfa að styðjast við það skilja það ekki og þeir sem veita þjónustu í því ekki heldur, eða þegar oft er vafi á hinum ýmsu hlutum — ég held að þá séum við komin lengst út í vitleysu. Ég held að þá þurfum við að stíga skref til baka og hugsa málið, eins og sagt er á leikskóla hjá syni mínum. Ef maður er að gera einhverja vitleysu þarf maður að hugsa málið og kemur til baka þegar maður er tilbúinn að takast á við verkefnið aftur. Það er ekki vanþörf á því.

Ég er ánægð með að farið var í það á síðasta kjörtímabili að reyna að endurskoða almannatryggingakerfið. Það er ekki komið til framkvæmda. Auðvitað veit ég að það er dýrt og ýmsir vankantar eru á. Annað í því er líka að stórir hagsmunahópar eins og Öryrkjabandalagið sáu sér ekki fært að halda áfram í þeirri vinnu. Ekki var sátt um hvert stefndi og það er mikilvægt að hafa það hagsmunafélag með sem og önnur. En það sem er athyglisvert — og kannski svolítið kaldhæðnislegt, því miður — við þetta frumvarp til laga, þó að það sé ágætt, er einmitt slagorð Öryrkjabandalagsins: Ekkert um okkur án okkar.

Því miður er hér ekkert um þá og það er líka án þeirra og það þykir mér miður. Ég hef fullan skilning á því að verið er að reyna að plástra og gera eins gott og hægt er í stöðunni en ég verð að segja að ég hefði viljað byrja á hinum endanum. Ég hefði viljað byrja á þeim sem hafa það allra lakast. Það er svo mikill ósómi að þeirri fátækt sem viðgengst í samfélagi okkar hjá þeim hópi. Það er grátlegt og mér finnst sárt að við séum ekki að fjalla um þau hér. Þetta frumvarp er gott og gilt, ég neita því alls ekki, og ég hef fullan skilning á því að við þurfum að passa upp á að fólk hafi hvatir til að borga í lífeyrissjóð, að sjálfsögðu, og það fái það til baka eins og verið er að passa upp á hér. En ég er með smá óbragð í munni samt sem áður yfir því að við séum ekki að standa okkur betur gagnvart þeim sem hafa það verst. Ég verð bara að segja það eins og er og ég veit að margir eru sammála því. En gott og vel, fólk er að gera eins vel og það telur fært á þessum tímapunkti en við bíðum spennt og sjáum hvað setur.

Við í Bjartri framtíð leggjum mikla áherslu á að stuðst verði við þá vinnu sem til er og búið var að vinna á síðasta kjörtímabili. Mér skilst að það hafi verið ágæt vinna að einhverju leyti alla vega, að haldið verði áfram með heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Við þurfum að gera betur. Mér fannst vinnan í nefndinni ágæt. Fólk er sammála um að það þurfi að gera betur. Það voru einhver ákvæði, um persónuvernd, upplýsingalöggjöf og annað, í frumvarpinu sem allir voru sammála um að þyrftu að bíða aðeins; ákvæði sem meiri hluti nefndarinnar ákvað að leggja til að yrðu tekin út að sinni. Það er mjög ánægjulegt og gott að ekki sé verið að þvinga einhverju í gegn sem fólk er ekki sátt með. Það var sameiginleg niðurstaða nefndarmanna, að mér heyrðist.

Það er kynjavinkill sem ekki er hugað að í frumvarpinu og forgangsröðun sem við gagnrýnum og leggjum áherslu á í breytingartillögu okkar og nefndaráliti minni hlutans. En við styðjum þetta frumvarp eins og hv. þingkona Freyja Haraldsdóttir talar um hér því að það bætir vissulega stöðu aldraðra og það er þarft. Ég verð að segja fyrir sjálfa mig að þegar maður stendur frammi fyrir tveimur slæmum valkostum, þarf að velja á milli, hefði ég kosið að við byrjuðum á hinum endanum, að við byrjuðum á þeim sem hafa það allra verst.