142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[15:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og ágæta yfirferð og alveg sérstaklega þegar hún getur þess að kerfið sé flókið. Það er eitthvað sem margir hafa bent á, og ég svo sem í gegnum tíðina, að það gengur ekki þegar kerfið er orðið þannig að sérfræðingarnir skilja það ekki, hvað þá almenningur. Mér finnst mjög brýnt að almenningur viti hvað hann er að fá í bætur og af hverju þannig að hann geti gert athugasemdir ef eitthvað er rangt reiknað eða rangt skilið. Ég legg áherslu á það.

Ég vildi spyrja hv. þingmann um afstöðu Öryrkjabandalagsins, þeir hafa slagorð sem mér finnst afskaplega gott: Ekkert um okkur án okkar. Mér finnst það mjög skemmtilegt og athyglisvert slagorð en þeir sögðu sig samt úr nefndinni þar sem verið var að fjalla um þessi mál vegna þess að þeir blönduðu því saman við önnur mál, þ.e. að hækka lífeyri almennt eins og verðlag eða laun sem ekki hefur verið gert.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er hann sammála þeirri afstöðu Öryrkjabandalagsins að hverfa frá vinnu þar sem verið er að fjalla um framtíð kerfisins sem átti ekki að valda auknum kostnaði — þannig var það hugsað en svo breyttist það reyndar — og vera að blanda inn í það mikilvægum hlutum reyndar, en meira dægurmálum, um að hækka grunnlífeyrinn eins og verðlag eða laun?