142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[15:23]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar. Miklar væntingar hafa verið hjá elli- og örorkulífeyrisþegum um hækkun lífeyrisgreiðslna til aldraðra og öryrkja og ekki að undra þar sem þeir hópar hafa þurft að bera kjaraskerðingu sem erfitt hefur verið að búa við.

Á síðasta kjörtímabili lögðu þáverandi stjórnvöld mikla áherslu á að verja tekjulægstu hópanna í röðum aldraðra og öryrkja og hækkuðu sérstaka framfærsluuppbót svo að hægt væri að verja kjör þessara hópa. Það voru rúmar 200 þús. kr. sem ég tel hafa verið rétta forgangsröðun við þær fordómalausu aðstæður sem urðu í kjölfar hrunsins. Ég hef alltaf talað fyrir því að það ætti að vera fyrsta verk okkar, þegar ríkissjóður færi að rétta úr kútnum, að koma til móts við þá hópa sem verst væru settir í þjóðfélaginu. Það tel ég rétt að gera og tel nú tækifæri til þess í kjölfar þess að gífurlega góður árangur hefur náðst á síðasta kjörtímabili við að endurreisa landið úr rústum frjálshyggjunnar. Nú höfum við möguleika til að koma til móts við þá hópa sem verst eru settir í þeim málaflokkum sem við erum að tala um, elli- og örorkulífeyrisþega.

Báðir núverandi stjórnarflokkar lofuðu að það yrði forgangsmál að afturkalla þær kjaraskerðingar sem óhjákvæmilegt var að fara í þegar ríkissjóður var á hliðinni. Nú kemur fram frumvarp sem á að mæta hinum digru kosningaloforðum beggja stjórnarflokkanna og þá kemur í ljós að einungis er verið að mæta litlu broti af því sem lofað var fyrir kosningar. Í frumvarpinu er um að ræða verulega hækkun á frítekjumarki vegna atvinnutekna fyrir ellilífeyrisþega og lífeyristekjur munu ekki lengur skerða grunnlífeyri almannatrygginga. Það er vissulega til bóta en það er ekki endilega rétt forgangsröðun. Það er kannski það sem stendur upp úr varðandi þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að mæta kosningaloforðum sínum og því, sem ég held að við sem sitjum hér á þingi séum í grunninn sammála um, að bæta kjör þeirra sem verst eru settir meðal öryrkja og hjá ellilífeyrisþegum.

Þetta útspil þýðir að þeir sem verst eru settir í hópi elli- og örorkulífeyrisþega fá ekki neinar kjarabætur við þessa aðgerð að óbreyttu. Minni hlutinn leggur til, það kemur fram í nefndaráliti hans í velferðarnefnd, að komið verði til móts við þá sem lægstar hafa tekjurnar. Þannig leggjum við til, í áliti okkar og breytingartillögu, að sú skerðing sem verið hefur króna á móti krónu á framfærsluuppbótinni verði lækkuð þannig að 80% annarra tekna komi til skerðingar uppbótarinnar í stað 100% frá og með 1. júlí 2013 og 70% frá og með 1. júlí 2014.

Þessar tillögur eru í samræmi við tillögur starfshóps sem unnið hefur að endurskoðun laga um almannatryggingar. Við leggjum einnig til að fram nái að ganga sú réttláta breyting að frítekjumark atvinnutekna örorkulífeyrisþega verði fært til samræmis frítekjumarki ellilífeyrisþega, sem er um 1,3 milljónir á ársgrundvelli. En sú forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er einkennileg, að mér finnst, að þær leiðréttingar sem frumvarpið felur í sér nái ekki til þeirra sem þurfa að framfleyta sér á lægstu bótunum og hafa engar eða litlar tekjur. Það eru einmitt þeir hópar sem eiga langerfiðast með að ná endum saman en þeir eru ekki settir í forgangshóp ríkisstjórnarinnar. Þeir mega bíða áfram í óvissu um hvenær þess megi vænta að kjör þeirra verði leiðrétt og bætt ef það þá verður gert.

Ég tel mjög brýnt að hækka bætur almannatrygginga verulega og það þarf vissulega að koma öllum til góða en þó sérstaklega þeim hópum sem verst eru settir. Það er vissulega rétt að bæturnar hafa hvorki náð að halda í við verðlagshækkanir né almenna launaþróun í landinu og jafnvel ekki algjörlega við hækkun á lægstu launum. Við þurfum vissulega að skoða það að hækka ýmis tekjuviðmið og frítekjumörk sem hafa verið fryst frá árinu 2009 sem ekki er tekið á í þessu frumvarpi. En allt kostar það peninga og allt er það spurning um forgangsröðun eftir getu ríkissjóðs og hvar þörfin brennur heitast hjá þessum hópum.

Ég fer til stuðnings þessu yfir nokkrar umsagnir sem borist hafa vegna frumvarpsins en vil undirstrika að minni hluti velferðarnefndar fagnar þeim vilja núverandi ríkisstjórnar, sem birtist í frumvarpinu, að auka útgjöld til almannatrygginga eins og áætlanir fyrri ríkisstjórnar gerðu ráð fyrir. Minni hlutinn tekur hins vegar undir með fjölmörgum umsagnaraðilum velferðarnefndar sem telja að verið sé að byrja á öfugum enda.

Frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra mun, að áliti minni hlutans, helst gagnast þeim lífeyrisþegum sem hafa hæstu tekjurnar og meðal annars þeim sem hingað til hafa ekki fengið neinar greiðslur frá almannatryggingum vegna of hárra tekna. Minni hlutinn tekur undir með þeim umsagnaraðilum sem telja að eðlilegra hefði verið að grípa til aðgerða sem kæmu tekjulægstu og verst settu lífeyrisþegunum til góða fremur en þeim tekjuhærri. Eðlilegast væri að fyrstu aðgerðir til leiðréttinga næðu til allra lífeyrisþega, svo sem með hækkun grunnlífeyris enda liggur fyrir að hann hefur ekki fylgt verðlagi að fullu síðustu ár.

Með leyfi forseta vísa ég í nokkrar umsagnir um þetta mál og byrja á umsögn sem kom frá Landssamtökum lífeyrissjóða:

„Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar sem meðal annars leiða til hækkunar á elli- og örorkulífeyrisgreiðslum. Sú breyting sem einkum varðar lífeyrissjóðina er að tekjur úr lífeyrissjóðum skerði ekki lengur grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega. Landssamtök lífeyrissjóða fagna þessari breytingu enda mikilvægt að fólk sjái ávinning af því að greiða í lífeyrissjóði. Eftir stendur þó enn tekjulægsti hópurinn sem hefur lágar greiðslur úr lífeyrissjóðum en frumvarpið varðar ekki réttindi þeirra sem fá greidda sérstaka framfærsluuppbót.“

Þá vil ég, með leyfi forseta, vitna í umsögn Alþýðusambandsins:

„Alþýðusambandið fagnar þeirri fyrirætlan að bæta kjör elli- og örorkulífeyrisþega með auknum framlögum til almannatrygginga en lýsir jafnframt verulegum vonbrigðum yfir því að það skuli gert í algjörri andstöðu við þá heildarendurskoðun á lögum um almannatryggingar og félagslegan stuðning sem unnið hefur verið að um margra ára skeið og breið samstaða var um meðal fulltrúa þingflokka og hagsmunaaðila í vor. Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru settar fram án alls samráðs. Þær ganga alfarið gegn þeim hugmyndum sem ríkjandi hafa verið um nauðsyn þess að einfalda og skýra almannatryggingakerfið og gera enn erfiðara en nú er að vinda ofan af margflæktu almannatryggingakerfi. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu munu vissulega gagnast hluta lífeyrisþega en þó aðeins þeim sem eru tekjuhærri. Þeir lífeyrisþegar sem þurfa að reiða sig eingöngu á tekjur almannatrygginga eða hafa lífeyrissjóðstekjur undir 215.000 kr. á mánuði og/eða lágar atvinnutekjur hafa engan ávinning af boðuðum breytingum. Samkvæmt tölum frá TR eru elli- og örorkulífeyrisþegar ríflega 46.000 en breytingin mun, samkvæmt athugasemdum við frumvarpið, hafa áhrif á tekjur um 7.000 þessara lífeyrisþega eða um 15%.“ — Þetta er athyglisvert og undirstrikar það sem ég hef sagt í ræðu minni.

Ég vitna, með leyfi forseta, í umsögn frá Samtökum atvinnulífsins:

„Þess í stað hvetja SA til þess að Alþingi taki til umfjöllunar frumvarp til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning, lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013. Það frumvarp var byggt á tillögum starfshóps um endurskoðun almannatryggingalaga sem skipaður var fulltrúum allra stjórnmálaflokka á Alþingi, heildarsamtaka vinnumarkaðarins, samtaka aldraðra og annarra bótaþega. Starfshópurinn samþykkti samhljóða, þann 22.6. 2012, tillögur um breytingar á ellilífeyri sem fela í sér mikla einföldun og minni víxlverkun tekna og bótagreiðslna. Í því frumvarpi er óvenjuítarlegt mat lagt á áhrif breytinga sem lagðar eru til, áhrif fjölgunar aldraðra á ríkisfjármál og samspil lífeyrissjóða og almannatrygginga. Það frumvarp felur vissulega í sér aukin útgjöld almannatrygginga en gildistaka ákvæða þess er áformuð í áföngum á löngum tíma og í samræmi við ríkisfjármálaáætlun á hverjum tíma.“ — Þetta er líka athyglisvert.

Þá vil ég, með leyfi forseta, fá að vitna í umsögn Öryrkjabandalags Íslands:

„Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að stefnt sé að því að draga úr hlutfalli þeirra tekna sem hafa áhrif á útreikning framfærsluuppbótar til tekjulágra einstaklinga. ÖBÍ hefur gagnrýnt mjög, meðal annars í umsögn um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning, útfærslu sérstakrar framfærsluuppbótar sem skerðist krónu á móti krónu vegna skattskyldra tekna og bent á hvernig uppbót þessi heldur lífeyrisþegum í fátæktargildru. ÖBÍ leggur áherslu á mikilvægi þess að sérstök uppbót vegna framfærslu verði afnumin og upphæð hennar felld inn í grunnlífeyri almannatrygginga og lúti sömu lögmálum og hann. 100% skerðingar, sem hafa tíðkast í gegnum árin, hamla meðal annars atvinnuþátttöku tekjulágra lífeyrisþega auk þess sem fólk sér ekki ávinning í því að greiða í lífeyrissjóð vegna samspils við almannatryggingar. Á þetta sérstaklega við um lífeyrisþega, sem eru með lágar lífeyrissjóðstekjur og engar aðrar tekjur nema bætur almannatrygginga. Sérstaka framfærsluuppbótin er án frítekjumarks og þess valdandi að hópur lífeyrisþega getur ekki nýtt sér frítekjumörk almannatrygginga.“ — Og vísað er í töflu sem fylgir umsögninni.

Þessi sjónarmið vega líka mjög þungt og við í minni hlutanum teljum að með breytingartillögu okkar höfum við mætt þeim að hluta til. Að þessu sögðu lít ég þannig á að við sem störfum hér á hv. Alþingi verðum að sameinast um það þvert á flokka að ljúka þeirri endurskoðun sem hafin var á almannatryggingakerfinu og komin var vel á leið í lok síðasta kjörtímabils. Ég held að við getum öll verið sammála um að einfalda þurfi kerfið og fækka bótaflokkum svo að fjármagn til þessa málaflokks nýtist sem best og nýtist best þeim sem þurfa á bótum að halda eða búa við bætur úr almannatryggingum, eða laun — ég hefði frekar viljað að við skilgreindum þetta sem laun. Það er nú þannig að sumir hafa sökum örorku ekkert í annað að sækja en þá tryggingu sem felst í því að fá greiðslur úr almannatryggingakerfinu og ég vil líta á það sem laun.

Ég ætla ekki að orða það öðruvísi en svo að um sé ræða viðleitni hjá núverandi ríkisstjórn að leggja þetta frumvarp fram um hækkun frítekjumarka vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega og afnám skerðingar grunnlífeyris vegna lífeyrissjóðstekna. Mér finnst þetta vitlaus nálgun og miðað við þær væntingar sem búið var að byggja upp í aðdraganda kosninga — og kom meira að segja fram hjá sumum þingmönnum stjórnarliða, að menn ætluðu að bæta afturvirkt þær skerðingar sem orðið hefðu, sem hefði kostað ríkissjóð gífurlega fjármuni — finnst mér þetta vera rýrt og forgangsröðunin röng og ekki í anda jöfnuðar og félagshyggju. Enda er sú ríkisstjórn sem nú situr við völd hægri frjálshyggjustjórn sem vinnur ekki á þeim grunni. En ég hef samt þá trú að þorri þingmanna vilji gera almannatryggingakerfið þannig úr garði að við getum með sóma búið að þjóðfélagsþegnunum þegar þeir eru hættir á vinnumarkaði eða hafa lent í því að verða öryrkjar sem enginn kýs sér — að við höfum það efst á blaði að búa vel að þessum þjóðfélagshópum og að við vöndum til verka svo að fjármagnið nýtist sem best hverju sinni og forgangsröðun verði rétt í þágu þessara hópa.