142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[15:44]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fjalla aðeins um þetta frumvarp og álit velferðarnefndar, meiri hluta og minni hluta, og gera að umtalsefni málið eins og það horfir við mér nú í ljósi umsagna sem um það hafa borist.

Það er orðið skýrara en nokkru sinni að viðvörunarorð okkar frá því í 1. umr. eiga við að fullu og öllu leyti. Hér er um að ræða frumvarp sem ívilnar þeim lífeyrisþegum mest sem mest hafa á milli handanna og í sjálfu sér þeim mun meir sem þeir hafa meira á milli handanna. Öfugsnúnari aðgerð, ef markmiðið var að bæta kjör lífeyrisþega, er erfitt að ímynda sér. Ég óska þeim til hamingju sem munu njóta vegna þessara breytinga og breytingarnar eru út af fyrir sig fullkomlega réttlætanlegar. En það horfir mjög sérkennilega við, þegar maður sér þær í samhengi við annars vegar kostnaðinn vegna breytinganna og hins vegar aðra þá kosti sem voru tiltækir til að bæta hag lífeyrisþega, að menn skuli hafa valið nákvæmlega þessar aðgerðir og ekki aðrar.

Eins og ég rakti í 1. umr. munu þeir sem eru með lífeyristekjur undir 250 þús. kr. einskis njóta af þessum breytingum. Þeir sem eru með lífeyristekjur á bilinu 250–350 þús. kr. munu í flestum tilfellum uppskera einhvers staðar á bilinu 16–22 þús. króna. Þeir sem eru með lífeyristekjur yfir 350 þús. kr. munu fá 34 þús. kr. í viðbótargreiðslu. Þessi aðgerð kostar ríkissjóð meira en 1,5 milljarða á ársgrundvelli. En þrátt fyrir þann umtalsverða tilkostnað nýtist hún ekki að nokkru leyti þeim sem eru í lægri hluta tekjuskala lífeyrisþega.

Minni hlutinn hefur komið fram með mjög skynsamlega breytingartillögu sem er tilraun til þess að hjálpa ríkisstjórninni út úr því öngstræti sérhagsmuna sem hún er komin í, að moka stöðugt undir þá ríku og gera þeim sérstaklega greiða sem þurfa síst á þeim að halda eins og birtist í áherslum ríkisstjórnarinnar hvað varðar veiðigjald til dæmis. Tillögur minni hlutans fela í sér að mæta hinum mikla fjölda lífeyrisþega með því að horfa sérstaklega á að fólk njóti lítils lífeyris í vaxandi mæli. Þetta hefur verið markmið okkar lengi að það skipti mjög miklu máli að ná þessu markmiði fram. Minni hlutinn kemur með tillögu sem er vel framkvæmanleg og kostar ekki mjög mikið, kostar lítið meira en næturgjöfin sem færa átti útgerðinni hér í gærkvöldi í skjóli nætur með viðbótarafslætti á veiðigjaldi, óræddum algjörlega.

Ég tel mjög mikilvægt að láta á það reyna hvort ríkisstjórninni, og stjórnarmeirihlutanum, sé algjörlega fyrirmunað að sjá réttláta leið til að nálgast þetta verkefni. Í 1. umr. um málið benti ég á að ef menn ætluðu að gera eitthvað sem nýttist þorra lífeyrisþega lægi beinast við að flýta þeirri ákvörðun sem við höfðum þegar tekið um að tímabundin hækkun skerðingarmarka gengi til baka fyrr en í árslok. Við höfðum ákveðið að það mundi gerast nú í árslok og það hefði verið hægt að flýta því. Það hefði verið skynsamleg aðgerð sem hefði nýst öllum þorra lífeyrisþega en hér koma menn með þessa aðgerð sem nýtist fáum. Eins og ég rakti í fyrstu ræðu minni njóta um 7 þús. lífeyrisþegar þeirra breytinga sem hér um ræðir. Um 2.500 sem koma nýir inn í almannatryggingakerfið, fólk sem ekki hefur notið neinna greiðslna frá hinu opinbera lífeyriskerfi vegna þess að það er með lífeyristekjur yfir 350 þús. kr. og 4.500 aðrir sem hafa verið í efri hluta tekjuskalans en samt fengið greiðslur frá hinu opinbera lífeyriskerfi, þeir hafa þá væntanlega verið með lífeyristekjur yfir 300 þús. kr. á mánuði, í flestum tilvikum.

En aðeins meira um forgangsröðunina. Stóri vandinn í lífeyriskerfinu stendur eftir þrátt fyrir þessa breytingu og það er aukið á hann ef eitthvað er. Svigrúmið sem menn ætluðu að skapa í breytingar- og umbótaferli á almannatryggingakerfinu er nú varið til þessa hóps og það verður ekki aftur tekið. Þá er markmiðið um heildstætt almannatryggingakerfi, þar sem fólk skerðist ekki krónu á móti krónu eins og í dag, þar sem fólk getur ekki fallið á krónu og fengið hundruð þúsunda útgjöld við það eitt að fá einni krónu meira í tekjur úr lífeyrissjóði — þá halda þessir ókostir kerfisins áfram að vera til og við nýtum ekki þá fjármuni sem þarna voru til ráðstöfunar til að greiða fyrir nýju heildstæðu kerfi.

Það er til dæmis athyglisvert að sjá hina hörðu gagnrýni sem þessar hugmyndir fá frá skammstöfununum ESA og ASÍ, þar sem menn gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að hverfa frá samstarfi allra flokka og aðila vinnumarkaðarins um nýtt almannatryggingakerfi. Nú er þessi ríkisstjórn orðin ber að því á sínu fyrsta sumarþingi að rjúfa sátt í öllum málum. Þessi ríkisstjórn, sem ásakaði fyrri ríkisstjórn alltaf um að efna til ófriðar og gera ekkert í sátt, hefur feril sinn á því að rjúfa sátt á öllum sviðum og hvert mál hennar á fætur öðru fær algera falleinkunn frá öllum umsagnaraðilum. Hún stígur út úr þverpólitísku samstarfi um nýtt almannatryggingakerfi sem er félagsleg nauðsyn því að enginn maður með réttlætistilfinningu getur varið almannatryggingakerfi sem er þannig að fólk sem á lítinn lífeyri tapi honum öllum en fólk sem fái mikinn lífeyri, frá hinu opinbera sérstaklega, njóti hans til fulls og ekki bara það heldur fái, samkvæmt frumvarpinu, viðbótargreiðslu upp á 34 þús. kr., jafnvel þó að fólk sé með vel yfir 350 þús. kr. í lífeyristekjur. Þá felst ósanngirnin í því að fólkið með 30 þús. kr. í lífeyri, sem á ekki stærri lífeyrissjóð en það, skerðist krónu á móti krónu og sú ósanngirni verður óþolandi í samanburðinum.

Minni hlutinn býður ríkisstjórninni upp á leið út úr þeim siðferðislegu ógöngum sem hún er komin í með málið með því að byrja á að innleiða breytingu sem við ræddum og kynntum í tengslum við nýja almannatryggingafrumvarpið, sem felst í því að skerðingin á sérstöku framfærsluuppbótinni, króna á móti krónu skerðingin, verði lækkuð úr 100% í 80% frá og með 1. júlí og 70% frá og með 1. janúar 2014. Þetta mun ekki kosta mjög mikla peninga. Þetta mun kosta rétt um milljarð. Í því heildarsamhengi að verið sé að stofna til nýrra útgjalda upp á 1,5 milljarða og verið að gefa útgerðinni hálfan milljarð með kvöldkaffinu í gærkvöldi er milljarður til að leysa þetta alvarlega vandamál fyrir þá lífeyrisþega sem minnst hafa milli handanna og minnst hafa borið úr býtum af ævistarfi og greiðslum í lífeyrissjóð alla tíð — þá finnst mér sá kostnaður réttlætanlegur og sanngjarn.

Eftir stendur að það er alveg óleyst hvernig menn ætla þá að taka á öðrum göllum almannatryggingakerfisins. Ríkisstjórnin ákveður þessa breytingu, hefur ekki samráð við nokkurn mann, hvorki kóng né prest, ræðir ekki við aðila vinnumarkaðarins sem hafa verið að vinna með stjórnvöldum að þróun almannatryggingakerfisins árum saman. Það gæti orðið gaman við atkvæðagreiðslu á eftir að taka upp hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar sem gagnrýndu fyrri ríkisstjórn harkalega fyrir að hafa ekki samráð um alla mögulega og ómögulega hluti við aðila vinnumarkaðarins. Svo er komið á þessu sumarþingi að öll mál ríkisstjórnarinnar hafa fengið falleinkunn Alþýðusambandsins og ekki er hlustað á athugasemdir í eitt einasta skipti. Stóra málið, jafnt þetta og skuldir heimilanna — algjör falleinkunn hvað varðar skort á samráði. Mér skilst að talsmenn Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins hafi sagt það skýrt fyrir velferðarnefnd að í þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar fælist einfaldlega ákvörðun um að slíta sig út úr samstarfi um endurskoðun almannatryggingakerfisins með aðilum vinnumarkaðarins, þverpólitísku samstarfi.

Þeir líta svo á að verið sé að ákveða að sprengja það allt í loft upp enda eru ekki lengur fyrir hendi þær forsendur sem gengið var út frá í vinnunni sem unnin hefur verið á síðustu missirum. Hverjar voru þær forsendur? Jú, að við hefðum verið nauðbeygð til tiltekinna skerðinga, að við vildum skila þeim aftur og að við vildum auka réttlæti í kerfinu. Þar sem við vorum að vinna á grunni sem við höfðum skert höfðum við ákveðna smurolíu í þeim fyrirheitum sem gefin höfðu verið um frekari fjárframlög inn í kerfið. Það skiptir máli að nýta þá smurolíu rétt þannig að þeir fjármunir fari ekki inn í gamalt kerfi og viðhaldi því heldur fari þeir í að greiða fyrir að nýju kerfi verði komið á og bæta sérstaklega þeim sem fara illa á einhverju tímabili út úr slíkri yfirfærslu. Það var grundvallarhugsunin í heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins. Ríkisstjórnin er með ákvörðun sinni að slíta sig út úr því. Hún er orðin ríkisstjórn sem gengur ekki fram í sátt í nokkru máli. Hún veður áfram, kærir sig kollótta um viðvörunarorð innlendra sem erlendra aðila og hún virðir enga samninga þvert á flokka eða við aðila vinnumarkaðarins. Þannig að þetta boðar nú ekki gott.

Virðulegi forseti. Ég vil trúa því að bráð geti af stjórnarmeirihlutanum. Einkanlega bind ég vonir við hv. þingmenn Framsóknarflokksins sem gengu mjög hart fram í aðdraganda kosninga og töluðu eins og þeim væri annt um velferð lífeyrisþega, gáfu stór fyrirheit um að leiðrétta skerðingar og að bæta aftur hag lífeyrisþega. Frumvarpið sem hér er er ekki til þess fallið, það er frekar til þess fallið að brjóta niður samstöðuna sem var að myndast um úrbætur fyrir þorra lífeyrisþega. Eftir stendur fólkið, hinn venjulegi vinnandi maður, algjörlega varnarlaust og ríkisstjórnin hefur engan áhuga á að leiðrétta ósanngirnina í almannatryggingakerfinu.

Fólkið með minnst á milli handanna úr lífeyrissjóðunum, fólkið með lélegu lífeyrissjóðina, á áfram að skerðast krónu á móti krónu og ríkisstjórnin hefur ekki áhuga á að forgangsraða lausnum í þeirra þágu. Ríkisstjórnin forgangsraðar lausnum í þágu þeirra sem hafa fyrir allra mest en mætir ekki þessum þörfum.

Ég bind einlæglega vonir við að ríkisstjórnarmeirihlutinn sjái ljósið og veiti brautargengi breytingartillögu okkar úr stjórnarandstöðunni sem flutt er af minni hluta velferðarnefndar við atkvæðagreiðslu hér á eftir. Það er lykilatriði að við höfum réttlátt almannatryggingakerfi og það er lykilatriði að hið vinnandi fólk, sem þarf með sköttunum sínum að standa undir ábyrgðinni á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna, sé ekki líka sett í óásættanlega stöðu með sinn eigin litla lífeyri.

Almennt er fólk á almenna vinnumarkaðinum, í verkalýðsfélögunum, með lakari lífeyri en þeir sem njóta réttinda í opinbera kerfinu. Fólkið á almenna vinnumarkaðinum er hins vegar í núgildandi kerfi skert krónu á móti krónu þegar það fær eitthvað úr hinu opinbera kerfi. Það á ekki að laga það. En til viðbótar ætlumst við til þess að fólkið í almennu lífeyrissjóðunum, hið venjulega vinnandi fólk, standi með sköttunum sínum undir því að tryggja og baktryggja réttindi þeirra sem njóta réttinda úr opinberu sjóðunum.

Fólkið í opinberu sjóðunum nýtur ekki bara betri lífeyrisréttinda heldur ætlumst við líka til þess að fólkið á almenna vinnumarkaðinum borgi með sköttunum sínum og tryggi með sköttunum sínum að lífeyrisréttindi fólks með réttindi í opinbera kerfinu skerðist aldrei á meðan fólkið í almenna kerfinu getur skerst. Við leggjum fram hóflega tillögu sem er ekki dýr til þess að mæta þessu fólki. Það verður prófsteinn á réttlætiskennd meiri hlutans hvort hann sér ástæðu til að styðja okkur í þeim tillöguflutningi.