142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[16:01]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það var haft á orði við umræðuna fyrr í dag að almannatryggingakerfið væri flókið. Það væri varla á færi nokkurs manns að skilja það í þaula og var sagt í gríni að hugsanlega væri einn maður í velferðarráðuneytinu sem kynni á því skil. Ekki held ég að þetta sé nú alveg rétt, þau eru mörg sem þekkja þetta kerfi vel. En það er rétt að kerfið er flókið og margir þættir þess eru illskiljanlegir. En flókið kerfi er ekki endilega ranglátt kerfi og ástæðan fyrir því að almannatryggingakerfið og þess vegna skattkerfið eða ýmsir þættir þess eru flókin kerfi er sú að menn hafa verið að reyna að ráðstafa fjármunum á réttlátan hátt, að ráðstafa takmörkuðu fé á réttlátan hátt. Þá vill það gerast að úr verði bútasaumur. Bútasaumurinn byggir ekki endilega á munstri ranglætis heldur á munstri réttlætis því að verið er að reyna að nýta fjármuni á sem hagkvæmastan hátt. Við höfum síðan öll okkar skoðanir á því hvað er réttlátt og hvað er ranglátt og kem ég að því hér síðar.

Nema hvað, fyrir fáeinum árum náðist um það samstaða í Stjórnarráði og hér á Alþingi að hafin yrði vegferð í þá átt að gera kerfið einfaldara. Þetta mun hafa verið á árinu 2007. Þá hófst umfangsmikið starf í þá veru og takmarkið, sem menn stefndu að, var að búa til kerfi þar sem bótaflokkunum yrði fækkað verulega og kerfið allt gert skiljanlegra og skilvirkara. Í stað þess að halda þeirri vinnu áfram og byggja á niðurstöðum hennar hefst núverandi ríkisstjórn handa um að halda bútasaumnum áfram. Í stað þess að byggja á þeirri miklu vinnu sem fyrir lá og reyna að halda samstiga inn í framtíðina með breiðri aðkomu hagsmunaaðila og þverpólitískri samstöðu ákveður ríkisstjórnin að stíga þessi skref núna. Jú, hún segist vera að reyna að standa við þau loforð sem gefin voru í nýafstaðinni kosningabaráttu. Ef svo gott væri hefði ég skilning á því sem væri nú að gerast. En svo er ekki. Þetta er aðeins hluti af pakkanum sem er reiddur hér fram á borðið.

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að stjórnarflokkarnir, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, séu farnir að líkjast sjálfum sér. Nú eru þeir að verða það sem við öll könnumst við sem munum eftir stjórnarsamstarfi þeirra á árabilinu 1995–2007. Hvað var það sem einkenndi stjórnarfarið og áherslur í Stjórnarráðinu og hjá meiri hluta Alþingis á þeim tíma? Það var einkavæðingin, markaðsvæðingin, sala bankanna og síðan breytingar í skattkerfinu sem flestar gengu í misréttisátt. Sköttum var létt af hátekjufólki, vörður staðinn um fjármagnseigendur og alla þá sem áttu digra sjóði en skattbyrðar auknar á millitekjuhópana og þá sem lakast stóðu að vígi. Hópar sem áður höfðu verið undanþegnir skatti voru nú farnir að greiða skatta.

Það var þetta sem einkenndi áherslurnar á þessum tíma og þegar Sjálfstæðisflokkurinn lýsti því yfir í aðdraganda síðustu kosninga að hann hefði í hyggju að létta skatta spurði ég margítrekað eftir því hvort það yrði gert í anda stjórnaráranna 1995–2007, hvort misréttisstefnunni yrði fylgt áfram, hvernig yrði forgangsraðað við framkvæmd þessa kosningaloforðs. Ég fékk engin svör en svörin höfum við síðan verið að fá hvert á fætur öðru í fyrstu forgangsmálum ríkisstjórnarinnar.

Er hún að létta sköttum af lágtekjufólki? Nei. Er hún að létta sköttum af millitekjufólki? Nei. Hún velur þær greinar atvinnulífsins sem best standa að vígi og léttir sköttum af þeim. Fyrirhuguð hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna sem átti að fara í 14% nú í haust — það er fallið frá því. Þar er um að ræða hálfan annan milljarð á ársgrundvelli, rúmlega hálfan milljarð á þessu ári, sem fallið er frá. Og við þekkjum síðan gjafirnar sem menn eru nú að útdeila til útgerðarinnar. Það mun verða á komandi ári og þeim mánuðum sem eftir lifir þessa árs og gjaldið hefði átt að koma til framkvæmda um 10 milljarðar kr.

Við erum með öðrum orðum að verða vitni að því að ríkisstjórnin hér á þessum örfáu fyrstu dögum, í upphafi vegferðar sinnar, sem ég veit nú ekki hve löng verður, er að afsala ríkissjóði um 12 milljörðum kr., bara á allra næstu mánuðum. Það verður fróðlegt að fylgjast með áherslunum í fjárlagaumræðunni í haust þegar við förum að ræða framlag til heilbrigðismála, til löggæslu, til landhelgisgæslu, til menntakerfisins og annarra þátta sem ég hélt að þverpólitísk samstaða væri um að reyna að bæta og bæta í. En hvort tveggja verður ekki gert. Enda segir í greinargerð sem fylgir því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar um almannatryggingar frá fjármálaráðuneytinu, með leyfi forseta:

„Þar sem ríkissjóður er ennþá rekinn með halla þarf að óbreyttu að mæta þessum auknu bótaréttindum og útgjöldum með lántökum með tilheyrandi vaxtakostnaði. Má því leiða líkur að því að lögfesting frumvarpsins geti haft í för með sér skattahækkanir í framtíðinni til að standa skil á þeim skuldum. Í þessu sambandi er þó líka ástæða til að minna á að stóran hluta útgjaldanna leiðir af breytingum á bótakerfinu sem gerðar voru fyrir nokkrum árum með tímabundnu fyrirkomulagi og að ekki höfðu heldur verið sett fram áform um hvernig staðið yrði að þessum málum til frambúðar í ríkisfjármálaáætluninni af hálfu fyrri ríkisstjórnar. Telja verður vandséð hvernig staðið verði í reynd undir þeirri auknu fjárþörf almannatryggingakerfisins sem leiðir af ákvæðum frumvarpsins eigi jafnframt að framfylgja stefnumörkun um jöfnuð í ríkisfjármálum á árinu 2014 nema gerðar verði ráðstafanir til að draga úr framlögum til annarra málaflokka í sama mæli eða leggja á hærri skatta til tekjuöflunar.“

Þarna er vikið að því að bæði vegna þessara ákvarðana og ákvarðana fyrri ríkisstjórnar þurfi að horfa til tekjuöflunar með skattahækkun eða með lántöku á komandi árum. Þetta er verkefni.

Við ræðum hér um málaflokk sem ég held að flestir Íslendingar vilji standa vörð um, þ.e. greiðslur úr almannatryggingakerfinu til aldraðra og öryrkja. Þá kem ég að því sem ég vék að í upphafi um ríkisstjórnarflokkana, hvernig þeir eru farnir að líkjast sjálfum sér. Vegna þess að endinn sem byrjaður er á eru þeir sem standa í efri tekjuhluta samfélagsins og horfi ég þá sérstaklega til aldraðra. Það er hagur þeirra sem mest er bættur og fyrst er bættur. Ég hefði haldið að brýnast hefði verið á þessu stigi að byrja á hinum endanum, að byrja á því að bæta kjör þeirra sem lakast standa. Þær breytingartillögur sem stjórnarandstaðan hefur sett fram snúa einmitt að því.

Hæstv. forseti. Mig langar að vitna í grein sem framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands, Lilja Þorgeirsdóttir, skrifar í Morgunblaðið síðastliðinn þriðjudag 2. júlí. Þar segir, með leyfi forseta:

„Staðreyndin er sú að ef frumvarpið fer óbreytt í gegnum þingið mun einungis mjög fámennur hópur örorkulífeyrisþega njóta þess því ekki er um að ræða hækkun á fjárhæðum einstakra bótaflokka heldur minni tekjutengingar hjá þeim sem hafa einhverjar aðrar tekjur en bætur almannatrygginga. Hækkun á frítekjumarki á launatekjum varðar eingöngu ellilífeyrisþega og afnám skerðinga á grunnlífeyri vegna lífeyrissjóðstekna nær einungis til fámenns hóps öryrkja. Sú forgangsröðun vekur furðu að leiðréttingar á kjörum sem byrjað er á ná ekki til þeirra sem þurfa að framfleyta sér á lágum bótum og hafa litlar eða engar aðrar tekjur. Þessi hópur á erfiðast með að ná endum saman en mun ekki fá leiðréttingar á sínum kjörum strax að loknu sumarþingi og mikil óvissa ríkir hvenær þeir megi vænta þess.“

Þetta eru þær áherslur sem ég vildi einnig slá í mínu tali og lýsa furðu minni á því og setja fram gagnrýni á áherslur ríkisstjórnarinnar hvað þetta varðar, að byrja á þeim endanum að bæta kjör þeirra sem hafa þau skár en ekki hinna sem eru með lægstu tekjurnar.

Á þensluárunum í byrjun þessarar aldar leið undarlega langur tími þar til farið var að huga að bættum kjörum öryrkja og aldraðra. Við munum hvernig það gerðist á tíunda áratugnum að hækkun á bótum almannatrygginga var tekin úr sambandi við viðmiðun við lægstu launataxta á markaði. Það var ákveðin trygging í því, einfaldlega vegna þess að verkalýðshreyfingin samdi iðulega um hækkun lægstu taxtanna og fylgdu þá bætur almannatrygginga á eftir. Síðan var gerð ágæt breyting á því fyrirkomulagi með því að setja ákvæði í lög þess efnis að bætur almannatrygginga skyldu hækka, annaðhvort samkvæmt almennri launavísitölu eða verðbólgunni, eða neysluvísitölunni í landinu. Þar með átti að tryggja að lífeyrisþegar færu aldrei verr út úr þróuninni en næmi annarri hvorri þessari vísitölu.

Þessu kerfi var síðan stefnt í vandræði, eins og ýmsu öðru í efnahagslífinu, þegar efnahagshrunið reið yfir. Það sem við gerðum var að vinda ofan af breytingum sem þá voru nýkomnar til framkvæmda, komu til framkvæmda á árunum 2007–2008. Þær gengu út á að draga úr tekjutengingum, það voru breytingarnar sem gerðar voru á þessum árum. Þá hefur Samfylkingin sennilega verið farin að sparka eitthvað í íhaldið og fá Sjálfstæðisflokkinn til að liðka til í þessu efni en í langan tíma hafði hann reynst afar tregur til þess. Þetta gerist en við efnahagshrunið er undið ofan af þessu aftur og byrjað á þeim enda gagnvart öldruðum — byrjað að skerða kjör þeirra sem eru með bestu kjörin, þ.e. að auka tekjutenginguna hjá þeim sem hafa bestu kjörin. Og það er þar sem ríkisstjórnin byrjar núna, ekki á lægsta fólkinu.

Það kemur mér ekki á óvart að framkvæmdastjóri Öryrkjabandalagsins skuli skrifa þessa grein í Morgunblaðið. Ég hef heyrt ýmsar áherslur frá samtökum aldraðra og það vekur athygli mína líka að menn forðast að styggja nokkurn mann og ekki heldur þá sem hafa sæmilegar tekjur og njóta þeirra og síðan almannatrygginga. Það kemur líka fram í máli framkvæmdastjóra Öryrkjabandalags Íslands að öllum skrefum sem tekin eru er fagnað en furðu lýst á því að áherslan skuli vera þessi.

Síðan er hitt sem mig langaði til að víkja að, það er varðandi framtíð þessa kerfis. Ég vil taka fram að ég er ekki að segja að skjóta eigi á frest öllum breytingum eða öllum kjarabótum áður en við erum búin að sjá framtíðarlandið fyrir okkur. Ég legg þó áherslu á að þegar breytingar eru gerðar á þessum kerfum, skattakerfi, almannatryggingakerfi, húsnæðiskerfi sem nú er mjög í brennidepli, þá þurfum við að reyna að sameinast um einhverja framtíðarsýn. Sú var tíðin að menn sáu fyrir sér að lífeyrissjóðirnir mundu leysa almannatryggingakerfið af hólmi og að einungis örfáir aðilar yrðu að reiða sig á almannatryggingar, svo sterkir yrðu lífeyrissjóðirnir að það yrðu öryrkjar og þeir sem ekki færu út á vinnumarkaðinn sem mundu njóta góðs af almannatryggingum. Þetta var framtíðarsýn sem margir höfðu.

Ég hef skrifað um það, hef gert það á undanförnum árum og missirum, að ég hafi efasemdir um að söfnunarsjóðirnir, lífeyrissjóðirnir, í okkar smáa hagkerfi rísi undir þeirri ábyrgð sem lögð er á herðar þeim. Ég hef hreyft þeirri hugmynd og gerði það í blaðagreinum að hluti af auðlindarentunni yrði látinn renna inn í sjóð sem stæði straum af nýju lífeyriskerfi þar sem dregið yrði úr vægi söfnunarsjóðanna en gegnumstreymisþátturinn yrði aukinn. Þar yrði þá um reglulega tekjulind að ræða fyrir slíkt fyrirkomulag. Þetta hefur ekki fengist rætt enda kallar þetta á langa og mikla umræðu. En hitt hefur fengist rætt, og að því er vikið í nefndaráliti minni hlutans, og ég kom að því áðan, að víðtæk endurskoðun á kerfinu hefur verið í gangi allar götur frá 2007 með það fyrir augum að einfalda kerfið og gera það á alla lund markvissara.

Ég lýsi eftir því að fá að heyra hvaða framtíðaráform ríkisstjórnin hefur hvað þetta snertir. Hyggst hún efna til samstarfs við alla stjórnmálaflokka hér á þingi, við verkalýðshreyfingu, við samtök aldraðra, Öryrkjabandalagið og alla sem á einhvern hátt tengjast þessum málum eins og reynt hefur verið að gera á undanförnum missirum og árum? Eða á að fara þá braut, sem mér sýnist, með vinnubrögðunum í tengslum við þetta frumvarp, að ræða hvorki við kóng né prest og halda inn í misréttissmiðjuna gömlu að nýju sem við fengum illu heilli að kynnast hér á árunum 1995–2007?

Það væri fróðlegt að heyra sjónarmið hæstv. félagsmálaráðherra um þetta efni sem hefur oft og tíðum verið með áherslur sem hafa verið mér ágætlega að skapi um jöfnuð í þessum kerfum. En ég auglýsi eftir því að fá að heyra viðhorf hennar um það hvernig hún hyggst standa að samstarfi við aðila innan þings sem utan um breytingar á almannatryggingakerfinu til frambúðar.