142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[16:21]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka velferðarnefnd og hv. formanni hennar málefnalega umræðu og heilbrigð vinnubrögð. Það kom mér því á óvart að heyra tóninn í hv. formanni þeirrar nefndar, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, í ræðu sem hún hélt fyrr í dag. Hv. formaður velferðarnefndar hélt langa upprifjun um hvað flokksfélagar hennar hefðu gert fyrir þá sem minna mættu sín. Hún nefndi meðal annars að þeim sem verst voru settir hefði verið hlíft við skerðingunum sem nauðsynlegar hefðu verið eftir hrunið eða árið 2009. Hverjir voru þá skertir, spyr ég, hverjir voru mest skertir þá, voru það kannski eldri borgarar? Getur það verið?

Þetta frumvarp er aðeins eitt skref af mörgum. Mér heyrist flestir vera sammála um að það sé gott skref. Sumir vilja taka eitthvert skref á undan en allir eru sammála um að þetta sé gott skref. Markmið frumvarpsins er að leiðrétta þá sem voru skertir mest. Þetta snýst ekki um annað. Þeir sem urðu fyrir mestri skerðingunni, það er verið að leiðrétta þá. Stjórnarandstaðan hefur státað af miklum bata í efnahagsmálum á sínu kjörtímabili. Er þá ekki kominn tími til að létta aðeins byrðum á eldri borgurum, þeim sem tóku mestar skerðingar á sig?

Ekki minnist ég þess að femínistar eða aðrir hafi kvartað yfir því að fleiri karlar yrðu fyrir skerðingu en konur árið 2009. Ég gef mér að kynjahlutföll hafi verið svipuð þá. Varðandi 2. gr. frumvarpsins var öll nefndin sammála því að skoða hana örlítið betur til að taka af öll tvímæli um lögmæti hennar en mikil áhersla var lögð á að halda áfram með þessa grein og þessa vinnu strax í haust því að hún er mjög brýn. Auðvitað viljum við öll gera vel við þá sem minnst mega sín.

Heildarendurskoðun almannatryggingakerfis mun halda áfram og vonandi með öllum flokkum. Ég geri mér grein fyrir því að á stuttu sumarþingi leysum við ekki þessi mál, ekki í heild sinni. Nokkrir umsagnaraðilar hafa bent á að greiðsluvilji lífeyrissjóða hafi minnkað verulega og það er áhyggjuefni, við þurfum að passa upp á það. Þann 1. júlí 2013 eru nákvæmlega fjögur ár frá því þessar skerðingar skullu á og mestar á eldri borgurum — það er vel við hæfi að nota þann dag til að leiðrétta það. Það er tími til kominn að stíga þetta farsæla skref. Ef menn vilja kalla þetta að hygla þeim ríku þá mega þeir það. Ég lít ekki á þá eldri borgara sem hafa þrek til að vinna sér inn aukapeninga sem auðmenn. Mér finnst kominn tími til að einhverjir aðrir taki þær byrðar af þeim.