142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[17:30]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum eitt af stærri málunum sem komið hafa inn á sumarþingið, sem er leiðréttingar á kjörum elli- og örorkulífeyrisþega, mál sem var töluvert mikið rætt í kosningabaráttunni, mál sem stór fyrirheit og loforð voru gefin um. Ég vakti athygli á því í fyrri umræðu, þegar við vorum að ræða þetta mál í upphafi, að hægt er að nálgast þetta frá mörgum sjónarhornum. Í fyrsta lagi getur maður sagt að með frumvarpinu séu ákveðnir þættir varðandi ellilífeyrisþega leiðréttir, frítekjumörk varðandi atvinnutekjur eru hækkuð og skerðing vegna lífeyrissjóðstekna afnumin. Í sjálfu sér er hægt að fagna því mjög að það skuli vera eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnarinnar að bæta í hvað varðar lífeyrissjóðstekjur eftir að umræddur hópur hafði verið skertur umtalsvert eftir hrunið.

Menn verða að átta sig á því að útgjaldaliðurinn, sem heitir í fjárlögum Greiðslur til lífeyrisþega, er í fjárlögum á árinu 2013 um 74 milljarðar, hafði hækkað frá árinu 2010 um 19 milljarða. Þá er ég að tala um á föstu verðlagi, var á milli 54 og 55 milljarðar árið 2010 en fór upp í 74. Ekki er því hægt að segja að fyrrverandi ríkisstjórn hafi ekki bætt verulega í kostnað vegna lífeyrisþega, en það skal sagt, til að gæta alls sannmælis, að þó að bætur hafi hækkað um rúm 16% á þessum tíma hefðu þær átt að hækka — ef fylgt hefði verið reglunni sem sett var um að fylgja annaðhvort launavísitölu eða neysluvísitölu eftir því hvort var hærra — um 22% á umræddu tímabili. Eitt af því sem vantar í leiðréttinguna við þessa hópa er um 6,2% að minnsta kosti. Ég hafði haft um það væntingar að menn færu kannski í þær prósentur þegar menn skiluðu skerðingunum frá tímabili fyrri ríkisstjórnar þegar farið væri að vinna úr málum eftir hrunið.

Hægt er að skoða þessa hluti út frá þessu og fagna ég því að hér er verið að gefa til baka. En þegar maður skoðar það nánar er verið að auka útgjöld á þessu ári um 1,6 milljarða. Í samhengi við tillöguna sem valdið hefur dálitlu upphlaupi varðandi þinghaldið í dag — þá ætluðu menn vegna kvartana frá útgerðarmönnum að færa til um 400 milljarða, bara með því að bæta því inn á nefndarfund í morgun. Mönnum er ekki annt um þá peninga, ekki heldur þegar verið er að breyta frá áformum um tekjur eins og var í sambandi við ferðamannaskattinn. Ferðamannaskatturinn var lækkaður þegar gengi krónunnar var hvað hæst, úr 14% í 7%. Þegar betur gengur, þegar ferðamönnum hefur fjölgað um 20%, svo að við erum í vandræðum með að taka sómasamlega á móti þeim, og ákveðið er að fara aftur í gamla formið — nei, þá má það ekki, það á að verja þann hóp sem nýtir gistiþjónustu, sem eru 70% útlendingar eða þar um bil. Þá má það ekki. Þegar kemur að því að leiðrétta kjör eldri borgara og lífeyrisþega, og menn lofuðu því að það gengi til baka, er mikilvægt að stíga fyrsta skrefið, en ég átti von á því að það skref yrði miklu stærra.

Annað atriði og það sem mun skila mestu fyrir lífeyrisþega — skerðingarprósentan hafði verið 45% allt góðærið fram til 2007/2008, þá var hún lækkuð niður í 38,35%. Það var ekki nema eitt og hálft ár sem hún stóð svo lág, vegna hrunsins var farið aftur upp í 45%. Það ákvæði átti að detta út nú um áramótin samkvæmt lögunum, það er bara í lögum að það fellur út og breytist 1. janúar 2014, því var ekki flýtt. Annars vegar getur maður fagnað umræddum breytingum, en ef þær eru skoðaðar í samhengi við kosningaloforðin og væntingarnar sem búið var að vekja er um hrein og klár svik að ræða. Mér finnst í sjálfu sér dapurlegt í ljósi væntinga, eftir að hafa verið velferðarráðherra og þurfa að skerða kjör þessa hóps til að bjarga ríkissjóði, eftir að hafa farið í gegnum kosningar þar sem menn lofuðu öllu fögru, að menn skuli ekki ganga harðar fram í að skila því til baka sem dregið hafði verið af.

Það olli mér líka vonbrigðum hvernig menn völdu að fara til baka. Menn velja ódýrustu kostina, þann hluta sem er ódýrastur og það sem kemur fæstum að gagni og þá fyrst og fremst þeim sem eru þó með skárri tekjur. Það er alveg hárrétt, sem hæstv. ráðherra sagði, og hefur komið fram í umræðunum, að þarna er hópur sem á rétt á að fá leiðréttingu. Í landinu eru um 45.000 lífeyrisþegar og er ég þá að tala um öryrkja og ellilífeyrisþega. Þarna fá 7.000 þeirra leiðréttingu, þar af eru ekki nema 4.500 af þessum 45.000 sem fá leiðréttingu, það er rétt rúmlega 10%, um 11% en 2.500 bætast við vegna þess að þeir eru með það góðar tekjur að hingað til hefur lífeyririnn skerst að fullu, nú fá þeir einhvern lífeyri greiddan þannig að þeir bætast við. Í heildina eru það sem sagt 7.000 manns sem fá leiðréttingu af þessum 45.000. Auðvitað hefur þetta valdið vonbrigðum, ekki síst hjá öryrkjum, vegna þess að tekjutenging við atvinnutekjur var fyrir hendi hjá öryrkjum, þess vegna gagnast breytingin þeim hópi ekki neitt.

Minni hluti velferðarnefndar, sem ég sit nú ekki í, fór yfir þetta mál og skoðaði forsendurnar. Það hefur komið skýrt fram í umræðunni að minni hluti þingsins, Samfylkingin alla vega, mun styðja tillögur hæstv. ráðherra. Hún bætir við og gerir tillögu um það í gegnum minni hluta velferðarnefndar — eitt af þeim ákvæðum sem maður verður að líta á sem tímabundið ákvæði, þegar við lentum í hruninu og sáum fyrir okkur að erfitt yrði að verja kjör lífeyrisþega þegar atvinnutekjur minnkuðu og menn misstu líka fjármagnstekjur, töpuðu verulega miklu. Það er ástæðan fyrir því að kostnaður við lífeyri hefur hækkað mjög mikið af því að tekjur hafa hrunið hjá mörgum ellilífeyrisþegum. Þá var bætt inn svokallaðri sérstakri framfærsluuppbót sem var til að tryggja að enginn fengi undir ákveðnum lágmörkum. Upphaflega var þetta um 180 þús. kr., í dag er þetta komið upp í 211 þús. kr.

Þá er þetta orðið þannig að það eru ferns konar bætur. Menn hafa grunnlífeyri, menn hafa tekjutryggingu, menn hafa heimilisuppbót og síðan hafa menn sérstaka framfærsluuppbót sem er um það bil 37 þús. kr. En sú uppbót var sett þannig upp að króna skertist á móti krónu, þetta var sett upp sem öryggisákvæði, þ.e. að ef menn hefðu engar aðrar tekjur fengju þeir þetta álag óskert. Þetta sem ég er að nefna, 211 þús. kr., það skal tekið fram til að gæta allrar sanngirni að miðað er við einstakling sem býr í eigin húsnæði og hefur engar aðrar tekjur. Þá gat hann farið upp í 211 þús. kr.

Viðmið sem oft hefur verið notað þegar menn eru að skoða hvernig afkoma lífeyrisþega er er að bera það saman við lágmarkstrygginguna hjá ASÍ. Allt góðærið voru lífeyristryggingarnar — þ.e. þessi grunnlífeyrir eða hvað á að kalla það, þessi lífeyrir sem var lágmarkið fyrir einstakling í sömu aðstæðum og ég var að lýsa — um 90–95% af þessum lágmarkstekjumörkum ASÍ. Eftir breytingarnar 2007/2008 fór þetta upp í 110%, þannig að þessar lágmarksgreiðslur voru hærri en lágmarkstryggingar á vinnumarkaðnum. Nú er þetta þannig að lágmarkstryggingin hér er 211 þús. kr. hjá lífeyrisþegum, fyrir einstakling sem býr í eigin húsnæði og allt það, en hjá ASÍ er hún 204 þús. kr. Þannig að við erum enn þá þrátt fyrir allar skerðingar í 105% í þessum hópi.

Gagnrýnin hefur verið sú að þegar menn setja upp bótaflokk sem er skertur króna á móti krónu þýði það í reynd, eins og kerfið er byggt upp, að menn þurfa að fara yfir 70 þús. kr. í mánaðarlífeyristekjur, þ.e. greiðslur út úr lífeyrissjóðum, til að það skili sér til viðbótar við þessa upphæð. Sú gagnrýni er réttmæt vegna þess að eitt af því mikilvægasta fyrir okkur er að þeir sem greiða í lífeyrissjóð sjái hag af því að hafa borgað í lífeyrissjóð og fái viðbótargreiðslur vegna þess að þeir hafi safnað í lífeyrissjóði.

Þess vegna var mjög mikilvægt að eitt af fyrstu skrefunum í leiðréttingunni væri, og það er til dæmis í almannatryggingafrumvarpinu sem var lagt fram í vor og endurflutt á þessu þingi, að reyna að tryggja að sú vinna sem þar var unnin, þverpólitísk og þverfagleg, lifði. Þar var fyrsta hugmyndin að minnka þessa krónu á móti krónu skerðingu þannig að það sem áður var skert 100% færi niður í 80% og strax 1. janúar á næsta ári niður í 70%. Það er tillaga minni hluta nefndarinnar að gera þetta. Það kostar einhvers staðar á milli 800 og 1.000 milljónir, þ.e. tæpan milljarð, að gera þetta og nær til miklu fleiri einstaklinga en frumvarp hæstv. ráðherra og nær þar að auki betur til kvenna sem fara verr út úr þeim breytingum sem verið er að gera núna, einfaldlega vegna þess að konur hafa lægri tekjur af ýmsum ástæðum sem eru raktar í nefndaráliti minni hluta velferðarnefndar.

Þessu til viðbótar hefði þurft að setja inn prósentuhækkun, en látum það nú bíða. Ekki er gerð formleg tillaga um það en vakin athygli á því í nefndarálitinu að það hefði verið æskilegasta breytingin vegna þess að það hefði skilað sér til allra.

Við skulum horfast í augu við það að eitt af því sem er sársaukafyllst fyrir þá sem hafa unnið að velferðarmálum og fyrir þá sem fylgjast vel með samfélaginu er að enn erum við á Íslandi með fátækt fólk, fólk sem hefur litlar tekjur, hefur litla og takmarkaða tekjumöguleika, þarf að framfleyta sér — kannski mundu þessi 211 þús. kr. í sjálfu sér duga, ef við byggjum ekki við það ástand að menn hafi ekki öruggt húsnæði fyrir eðlilegan pening. Ef þú þarft að borga húsnæði sem einstaklingur upp á 80–100 þús. kr. eða jafnvel meira, 120–150 þús. kr., hvað hefurðu þá í afgang af 180 þús. kr. útborguðum bótum eða 174–180 þús. kr.? Það sjá allir að ekki er hægt að lifa af því. Ég hefði viljað sjá menn glíma við það áfram að tryggja þessum hópi afkomu, að hinir hefðu verið látnir bíða örlítið lengur á meðan við höfum ekki meiri efni en þetta.

En miðað við þær peningaupphæðir sem rætt hefur verið um og miðað við þær upphæðir sem eru í spilinu, t.d. um niðurfellingu á gjöldum, þ.e. minnkandi tekjur ríkissjóðs, hefði ekki verið of mikið í lagt að menn hefðu sett svona 4–4,5 milljarða að minnsta kosti inn í almannatryggingakerfið strax og reynt að tryggja að fleiri fengju og reynt að tryggja að við gætum komið fleirum út úr þessum fátæktargildrum. Því miður var sú leið ekki farin.

Á sama tíma og maður fagnar þeim breytingum sem gerðar eru hryggir það mann að við skulum ekki gera betur við þennan hóp, gera betur í þessum hluta kerfisins. Þó við vitum að margir hafi tapað — það var markmið síðustu ríkisstjórnar, þegar við vorum að vega og meta hvernig gripið yrði inn í, menn vissu að hér varð kaupmáttarrýrnun upp á 25%, það tapaðist fjórða hver króna af tekjum heimila bara með hruninu í október 2008, þá voru góð ráð dýr. Ísland er eitt af fáum ríkjum — ef nokkurt annað ríki gerði það — sem breytti algjörlega um taktík, fór inn í þrepaskatta, hækkaði gjöld á þeim sem höfðu betri tekjur og varði eins og hægt var þá sem minnstu tekjurnar höfðu. Þessi sérstaka framfærsluuppbót var hluti af því.

Aðilar vinnumarkaðarins eiga heiður skilinn fyrir hvernig þeir komu inn í kjarasamninga, vegna þess að þeir voru líka þátttakendur í því að fara í krónutöluhækkanir, hækka lægstu laun, tryggja að menn hefðu þokkalega afkomu. Árangurinn varð sá að þessi kaupmáttarrýrnun var 9% samkvæmt útreikningum Hagfræðistofnunar Háskólans á lægsta hópinn, en allt upp í 35% á þá sem hærri voru. Það sem hefur verið svolítið sérkennilegt í umræðunni og gert að verkum að oft hefur verið dálítið erfitt að taka þátt í henni er að þegar menn eru að kvarta yfir breytingum hefur hávaðinn oft verið mestur í þeim sem voru hæstir fyrir. Það hefur verið hlutverk okkar, mín sem fyrrverandi ráðherra og annarra sem hafa viljað jafna kjörin eða verja hag þeirra sem minnst höfðu, að hlusta rétt. Því að fátæki einstaklingurinn sem býr einhvers staðar hér í Reykjavík, í úthverfunum, hann er ekki sá sem kvartar mest. Þeir sem voru að kvarta yfir niðurskurðinum í lífeyriskerfinu, það voru ekki þeir sem voru án þess að vera með lífeyri, það voru ekki konurnar sem höfðu aldrei fengið greiðslur úr lífeyrissjóði nema kannski makalífeyri sem var mjög takmarkaður. Það voru þeir sem voru með bestu lífeyrissjóðina frá opinberum starfsmönnum og sáu að ávinningurinn af því var ekki að skila sér að fullu eins og markmiðið var, það var að reyna að færa til á meðan við erum að fara í gegnum þessa erfiðleika. Skilaboðin núna eru þau að nú megi fara að gefa til baka til þess hóps. Ég ætla ekki að gera lítið úr því. Það er mikilvægt, en við máttum ekki við því að gleyma hinum. Ég harma að við skulum ekki hafa tekið betur þátt í þessu.

Þetta birtist ágætlega í nefndaráliti frá minni hluta velferðarnefndar þar sem skoðaður er fjöldi ellilífeyrisþega sem eru með lífeyrissjóðstekjur. Það er ekki fyrr en menn eru komnir upp í tekjur um 300 þús. kr. sem hún fer að telja inn sem viðbót þessi breyting sem hér er á frumvarpi hæstv. ráðherra. Þeir sem eru með 250 þús. kr. og minna í viðbótartekjur fá ekki neinar viðbætur. Í þessu felast ákveðin skilaboð. Ef við skoðum aftur á móti ellilífeyrisþega með lífeyrissjóðstekjur og svo með tilliti til atvinnutekna, bætist það fyrr við, þannig að strax og menn hafa 50 þús. kr. í atvinnutekjur bætast 5 þús. kr. við og svo koll af kolli, en mest hjá þeim sem eru með 250–300 þús. kr., þar sem þetta hækkar um 40 þús. kr. á mánuði. Ég er ekki að segja að það fólk sé ofsælt af því, langt í frá, og ég tel mikilvægt að gera þessa breytingu og styð það heils hugar að hún verði gerð. En ég held að við höfum ekki haft efni á því að gleyma hinum hópnum á sama tíma.

Örorkulífeyrisþegi sem er með lífeyrissjóðstekjur og fyrst metinn öryrki 35 ára — menn verða að tilgreina aldurinn vegna þess að aldurstengd örorka hefur áhrif á lífeyrisgreiðslur — þá er það sama, það er ekki fyrr en menn eru komnir upp í 250 þús. kr. að fer að bætast við, í viðbótartekjur.

Þannig virkar þetta kerfi, því miður. Minni hlutinn í hv. velferðarnefnd kemur með tillögur þar sem farið er út í að minnka skerðinguna krónu á móti krónu á sérstakri framfærsluuppbót og ef maður skoðar fjöldann sem mundi fá slíka leiðréttingu sjáum við á þeim töflum sem fylgja nefndarálitinu — bara við það að fara í 80% fjölgar ellilífeyrisþegum sem fá greiðslur um 11.300 í staðinn fyrir 7.000 í hinu. Þar fjölgar konum um 7.800, körlum um 3.500. Þar rétta menn upp og taka kannski hlutfallið, vegna þess að það er þannig að lífeyrisþegar, bæði vegna aldurssamsetningar en líka vegna örorkunnar, eru um 60% lífeyrisþega konur. En í frumvarpi hæstv. ráðherra fá karlarnir meiri hlutann af því sem bætt er við.

Án þess að leggjast gegn frumvarpi hæstv. ráðherra gagnrýna menn þetta, bæði út frá forgangsröðuninni, út frá því að þessar breytingar harmónera ekki og fara ekki beint saman með þeirri hugmyndafræði sem er í nýju frumvarpi um almannatryggingar sem mér finnst mikilvægt að vinna áfram. Sú vinna var komin mjög langt með aðilum vinnumarkaðarins, með öllum stjórnmálaflokkum, með hagsmunaaðilum, burt séð frá því að Öryrkjabandalagið mætti ekki á þá fundi en aðrir tóku þátt — það er auðvitað verkefni út af fyrir sig að ná þeim að borðinu og vinna hlut öryrkja betur. Mörg atriði þar sem þarf að bæta við. Þetta er gagnrýnisvert og svo ekki síst þessi jafnréttisvinkill, að þeir sem eru með lægstu tekjurnar eru konur, þær eru meiri hluti, en samt ætlum við að bæta í fyrir karlana.

Þannig er forgangsröðunin í þessu. Síðan komu inn, og það er af öðrum ástæðum, eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar. Það segir okkur hvernig aðstæðum við erum að vinna í á þessu stutta sumarþingi, fram komu skarpar athugasemdir. Ég skal bera fulla ábyrgð á því því að í fyrra frumvarpi voru svipuð ákvæði, nánast eins — þannig athugasemdir komu fram að ekki vannst tími til að ljúka því. Vonandi verður hægt að auka eftirlitsheimildirnar þannig að það standist persónuverndarlög og öll mannréttindi, og það komi þá inn á septemberþinginu. Ágætissátt náðist í nefndinni, sé ég, um að fresta því ákvæði. Það er mjög mikilvægt.

Ég hvet hæstv. ríkisstjórn til dáða varðandi það að vinna að endurskoðun almannatryggingafrumvarpsins. Ég treysti núverandi hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra mjög vel til að leiða slíka vinnu. Ég veit að hún veltir vöngum yfir því hvernig megi gera það svo að okkur takist sem allra fyrst að bæta hag þessara hópa.