142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[17:51]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langaði að velta upp einum punkti. Á síðasta kjörtímabili var nauðsynlegt að fara í niðurskurð og öllum fannst sár sá mikli niðurskurður sem farið var í í velferðarmálum. Það sem gerðist hins vegar var að í gegnum niðurskurðinn í heilbrigðismálunum sérstaklega var ákveðið að fara í svokallaðar kerfisbreytingar þannig að þær sjúkrastofnanir sem voru úti á landi urðu hlutfallslega fyrir meiri niðurskurði en aðrar — ég nefni Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Austurlands og Skagafjarðar sérstaklega, það voru reyndar fleiri. Það sem gerðist var að þessi mikli niðurskurður bitnaði sérstaklega á þeim störfum sem frekar voru unnin af konum en körlum. Ég veit vel að það er erfitt, og var erfitt á síðasta kjörtímabili, að fara í einhverjar sérstakar greiningar á því á hverjum niðurskurðurinn mundi helst bitna.

Nú er gagnrýnt, reyndar á svipaðan hátt, að þetta frumvarp bitni frekar á konum en körlum — ég sé reyndar ekki að þetta bitni neitt sérstaklega á konum, en miðað við ákveðna hópa eftir einhverjum skilgreiningum geti það gerst. En ég vil bara velta þessu upp og spyrja hv. þingmann hvort ekki megi líkja þessu saman og hvort hann muni ekki (Forseti hringir.) styðja okkur áfram í því að reyna að gera eins vel við öryrkja og eldri borgara og við getum.