142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[17:53]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst það síðasta. Ég lauk ræðu minni og byrjaði hana raunar á því líka að taka fram að við mundum að sjálfsögðu styðja hæstv. ríkisstjórn og ráðherra í öllum lagfæringum á kjörum lífeyrisþega, eldri borgara og öryrkja.

Varðandi heilbrigðiskerfið, að tala um kerfisbreytingu. Í fyrsta lagi er það þannig að þegar við förum í harðan niðurskurð, sem bitnar á störfum og verður til að fækka ríkisstarfsmönnum, bitnar það á konum því að meira en 80% ríkisstarfsmanna eru konur. Í öðru lagi er launakostnaður á heilbrigðisstofnunum og á þessum þjónustustofnunum sem við rekum líka um 80% líka. Það er því erfitt að koma niðurskurði við án þess að það bitni á störfum. Aftur á móti gaf hv. þingmaður sér ranga forsendu þegar hann talaði um að niðurskurðurinn hefði orðið meiri úti á landi. Við reiknuðum það þannig í velferðarráðuneytinu að niðurskurðurinn á Landspítalanum hefði verið um 19% — sjálfir reiknuðu þeir hann 22%, það var af því þeir notuðu öðruvísi gengisviðmið í útreikningi sínum.

Heilbrigðisstofnanir úti á landi eru með 17–20% niðurskurð. Það voru tvær stofnanir sem áttu að sæta 40% niðurskurði í byrjun. Það voru Þingeyingar og Skagfirðingar. Hv. þingmaður man, ég held við höfum verið saman í fjárlaganefnd þegar það var, að því var breytt í 10% árið 2010 þegar ég kom í ráðuneytið. Í september 2010 breyttum við fjárlögunum á þann veg að sett var þak, þ.e. að niðurskurðurinn yrði ekki meiri en 10%. Aftur á móti var svo haldið áfram. Það er alveg ljóst að mikil óánægja hefur verið á þessum stofnunum. Brugðist var við þessu af Þingeyingunum með sameiningu á milli hjúkrunarheimilis og heilbrigðisstofnunar. Það hefur gengið verr að ná sáttum í kringum Skagfirðingana. En það verður gaman að skoða þetta þegar heildin er komin upp. Þá er það nú sem betur fer þannig að heilbrigðisstofnanir úti á landi hafa ekki sætt meiri niðurskurði, því ef farið er út í samanburð er ekki hægt (Forseti hringir.) að bera það saman við neitt annað en Landspítalann.