142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[17:55]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir hans svör. Það er vissulega rétt að lagt var af stað með 40% niðurskurð. Haldnir voru borgarafundir víðs vegar um landið. Ég veit að íbúar á Seyðisfirði hittust og tóku höndum saman utan um sína stofnun. Þannig var samhugur fólksins. Það er rétt að meiri hlutinn í fjárlaganefnd ákvað að minnka niðurskurðinn eftir harða og mikla baráttu stjórnarandstöðunnar hér á þingi. Ef ég man rétt var ákveðið að dempa þann niðurskurð úr 40% í 38% á árinu 2010. En ég þakka hv. þingmanni fyrir þau svör að hann sé reiðubúinn að aðstoða okkur við að bæta kjör eldri borgara, lífeyrisþega og öryrkja og ég vona að ánægjulegt samstarf sé fram undan.