142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[17:56]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vona að við eigum ánægjulegt samstarf og líka um að reyna að bregðast við í heilbrigðiskerfinu af því það var nefnt. Það tengist líka því sem við erum að ræða hér um lífeyris- og örorkugreiðslur. Þar skiptir mjög miklu máli að við eigum eftir mikil verkefni eins og til dæmis að jafna lækniskostnað og tryggja að öryrkjar og aðrir búi ekki við háan lækniskostnað. Það er gríðarlega stórt verkefni sem við eigum eftir. Ég hef heyrt að hæstv. heilbrigðisráðherra sé að vinna í því að koma vinnu í gang aftur til að ljúka því verkefni. Hann á allan okkar stuðning í sambandi við það, því að þetta skiptir gríðarlega miklu máli.

Það er annað sem ég hef miklu meiri áhyggjur af úti á landsbyggðinni en akkúrat upphæðunum sem fara í rekstur stofnananna. Menn treysta sér ekki lengur til að veita ákveðna þjónustu, bæði vegna þess að ekki er hægt að fá lækna til að vinna á ákveðnum stöðum lengur og líka vegna þess að aðbúnaðurinn er ekki með þeim hætti að það sé hægt, og þá kemur aukinn ferðakostnaður til. Ég verð að viðurkenna að mér sárnar að hafa ekki náð að leiðrétta það að þeir sem þurfa einhverra hluta vegna að sækja þjónustu um langan veg fái það ekki betur borgað, hvort sem það er frá Húsavík inn á Akureyri eða frá Sauðárkróki inn á Akureyri, t.d. að sækja þjónustu vegna fæðinga. Ég tel það mjög mikilvægt og þar þarf að bæta úr.

Eitt af verkefnunum sem var komið í gang, og verður vonandi klárað, er að setja upp sjúkrahótel á Akureyri þannig að hægt sé að tryggja að fjölskyldur sem þurfa að sækja þjónustu um langan veg og þurfa að vera nálægt stórum spítölum, eins og á Akureyri og í Reykjavík, geti búið við ódýran kost. Það er sjúkrahótel í Reykjavík, en það þarf endilega að koma því á fót á Akureyri. Ég veit að verið er að vinna að því. Það var komið vel á veg áður en ég yfirgaf ráðherrastólinn.

Laust og fast er verkefnið þetta: Höldum vel utan um okkar fólk. Jafnrétti og jöfnuður er verðmæti í sjálfu sér. Í guðanna bænum látum ekki nýja ríkisstjórn eyðileggja það sem áunnist hefur í því að auka jöfnuð (Forseti hringir.) í samfélaginu á síðustu fjórum árum.