142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[18:41]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég biðst velvirðingar á þessum ruglingi en ég tel engu að síður mikilvægt að koma hér upp og vekja athygli á því að meiri hlutinn í þinginu er að hafna réttlætisbreytingum fyrir þá sem minnst hafa í samræmi við það frumvarp sem var unnið í þverpólitískri sátt um breytingu á almannatryggingakerfinu. Við teljum þetta mikilvægt réttlætismál. Við teljum óeðlilegt að við breytingar sem eru í samræmi við kosningaloforð beggja flokka um að auka hag þeirra sem hafa framfærslu sína af almannatryggingum sé meiri hluti þingsins ekki tilbúinn til að veita innan við milljarð til að þeir sem minnst bera úr býtum í kerfinu fái hærri greiðslur mánaðarlega.