142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[18:43]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er veikleiki þessa máls af hálfu ríkisstjórnarinnar að þeir sem bera eitthvað úr býtum vegna þess eru einkanlega betur settu lífeyrisþegarnir. Með þessari breytingartillögu erum við að reyna að tryggja að fólkið sem hefur lélegan lífeyri, er á almennum vinnumarkaði, er með örfáa tugi þúsunda í lífeyri, fái eitthvað út úr breytingunni, og að það fái að njóta síns litla lífeyris í vaxandi mæli í friði.

Uppleggið frá ríkisstjórninni er það að fólk sem hefur unnið alla sína ævi á almennum vinnumarkaði, er með lítinn lífeyri, á að borga með sköttum sínum líka verulega hækkun á lífeyri til þeirra sem fyrir hafa mestan lífeyri og það er ekki sanngjarnt. (Gripið fram í.) Hér er ríkisstjórnin að falla á prófinu, hún er að falla á því prófi að tryggja venjulegu fólki með lítinn lífeyri einhvern ávinning af þessum breytingum.