142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[19:47]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, við höfum farið yfir þetta mál að sjálfsögðu, en að uppistöðu til hefur málefnaleg umræða um frumvarpið fyrst og fremst farið fram í þessum þingsal. Það sem upp á þingið stendur hvað þetta mál varðar er að okkar skylda, sem sitjum í þessum sal, er að styrkja stöðu þingsins, því eins og fram kemur í minnihlutaálitinu fer Alþingi með fjárstjórnarvaldið. Það skiptir mjög miklu máli að fjárlagafrumvarp og frumvörp sem því tengjast komi fyrst inn á borð þingmanna þannig að þingið geti rækt skyldur sínar sem eftirlitsaðili og sem valdaaðili hvað fjárlögin áhrærir. Þess vegna er þetta ekkert smámál sem hér er á ferðinni. Það er fyrst og fremst í þessum þingsal sem tekist er á um málið. Nefndin tók hins vegar til skoðunar ýmis tæknileg úrlausnarefni sem þessu tengjast, en um grundvallaratriðin er tekist á í þessum þingsal.