142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[19:48]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Hér er til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis með síðari breytingum, nr. 55/1991, og fjallar um samkomudag reglulegs Alþingis haustið 2013. Um þetta mál hefur verið fjallað í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og fyrir liggja í málinu nefndarálit frá 1. minni hluta nefndarinnar sem hv. þm. Brynjar Níelsson hefur gert grein fyrir. Þar er einnig að finna breytingartillögu með viðbótarsetningu til þess, eins og hv. þingmaður orðaði það, að taka af allan vafa um að lagafrumvarpið eða lögin svo breytt mundu koma til framkvæmda með réttum hætti og að tryggt væri að þing mundi koma saman aftur eftir þetta þing í framtíðinni — dálítið kúnstugt að vísu, en einkum og sér í lagi hvernig um málið var búið af hæstv. forsætisráðherra sem lét hæstv. fjármálaráðherra flytja málið fyrir sína hönd. Síðan liggur hér fyrir nefndarálit frá 2. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, en undir það álit rita fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingar og Pírata.

Ég vil segja það strax í upphafi að ég er sammála þeim sjónarmiðum sem koma fram í nefndaráliti frá 2. minni hluta og þeirri niðurstöðu sem þar er að finna, þar sem segir að 2. minni hluti sjái sér ekki fært að styðja þær breytingar sem frumvarpið felur í sér.

Nú er rétt að rifja það aðeins upp, eins og kemur reyndar fram í nefndaráliti 2. minni hluta, að þingsköpin sjálf, þingskapalögin, eru sá rammi sem við störfum eftir hér í þinginu. Segja má að það séu leikreglurnar sem allir spila eftir, óháð því í hvaða stjórnmálahreyfingu þeir eru og óháð því hvort þeir eru í ríkisstjórn eða stjórnarandstöðu frá einum tíma til annars. Þess vegna er mjög mikilvægt að um þingsköpin sé góð samstaða og þeim sé ekki breytt öðruvísi en að um slíkar breytingar sé sömuleiðis samstaða í þinginu.

Sem betur fer hefur það nú oftast verið þannig að menn hafa ekki ráðist í breytingar á þingsköpum öðruvísi en að um það sé samstaða meðal þeirra stjórnmálahreyfinga sem sitja á Alþingi hverju sinni. Að vísu eru dæmi um hið gagnstæða, en það er hin almenna regla og má segja eins konar heiðursmannasamkomulag í samskiptum stjórnmálaflokkanna að þannig sé staðið að málum. (Gripið fram í.) Nú veit ég ekki hvers virði heiðursmannasamkomulag er, maður hefði ætlað að þegar menn gera samkomulag og handsala haldi slíkt. Því miður finnst mér það frumvarp sem hér er komið fram dæmi um hið gagnstæða. Það er mjög miður að ríkisstjórnin hafi ákveðið að fara fram með þetta mál án þess að allir stjórnmálaflokkar væru flutningsmenn málsins eða flutningsaðilar.

Á síðasta kjörtímabili var að störfum þingskapanefnd með fulltrúum allra flokka. Hún starfaði mjög vel, fundaði reglulega með hléum að vísu, en reglulega og flutti hér inn í þingið tillögur í tvígang um breytingar á þingsköpum. Þannig var um þá hnúta búið að allir flokkar stóðu að þeim breytingum sem þar var að finna. Af því ég leiddi nú þessa nefnd á síðasta kjörtímabili er mér mjög vel kunnugt um að á grundvelli þeirrar umræðu sem þar fór fram — auðvitað voru skoðanir skiptar um einstakar tillögur og hugmyndir sem komu inn í nefndina. Um sumar þeirra var alger samstaða þegar í upphafi, aðrar þurftu talsverðrar umræðu við. Ef menn urðu sammála um þær voru þær lagðar fram. Ef einhver einn fulltrúi í nefndinni var andsnúinn þeim voru þær ekki lagðar fram. Þannig var vinnulagið, einfaldlega vegna þess að við vildum að um þessar grundvallarleikreglur í þingsal og í þingstörfum væri samstaða og ekki væri verið að fara gegn vilja einhvers eins.

Þannig má kannski segja að lægsti samnefnarinn hafi alltaf orðið ofan á og sumir segja að það sé ekkert alltaf gott. En í máli eins og þessu er það gríðarlega þýðingarmikið og verðmætt fyrir samskipti stjórnmálahreyfinganna óháð því hvort þær eru í stjórn eða stjórnarandstöðu frá einum tíma til annars.

Hér er verið að gera tillögu um breytingu á samkomudegi Alþingis í eitt skipti nú í haust. Rökstuðningurinn sem fram kemur í greinargerð, og kom einnig fram í máli framsögumanns, hæstv. fjármálaráðherra, í gær, lýtur einkum að þeim tíma sem ríkisstjórnin, sem tók til starfa í maímánuði síðastliðnum, hefur haft eða hefur fram að þingi í haust til að undirbúa fjárlagafrumvarp. Nú er það auðvitað ekki þannig að þeir stjórnmálaflokkar sem taka að sér að mynda ríkisstjórn í landinu eftir kosningar að vori setjist fyrst niður að afloknu pönnukökuáti og fari að semja fjárlagafrumvarp frá grunni. Þannig ganga hlutirnir ekki fyrir sig. Stjórnsýslan sem er ein og hin sama, óháð því hvaða flokkar eru í ríkisstjórn, hefur að sjálfsögðu verið að vinna fjárlagafrumvarp í langan tíma, vikum og jafnvel mánuðum saman. Þannig að sjálfsögðu liggur fyrir allur grunnur að fjárlagavinnunni þegar ný ríkisstjórn tekur við. Hún þarf að hafa svigrúm til að setja sitt mark á fjárlögin, eðlilega, það er enginn að tala um að hún eigi ekki að hafa það, en hún byrjar ekki að vinna fjárlagafrumvarp frá fyrsta staf. Það er ekki þannig. Hún getur komið áherslum sínum inn í þá vinnu og hefur til þess nokkra mánuði frá því í maí að hún var skipuð, þar til þingið kemur saman. Henni er engin vorkunn að gera það.

Fyrstu fréttir sem við í stjórnarandstöðunni höfðum af þessu máli lutu að vísu ekki að fjárlagafrumvarpinu sjálfu, heldur því ákvæði þingskapalaga að samhliða fjárlagafrumvarpi skuli lögð fram þau frumvörp önnur um tekjuöflun ríkisins sem fjárlagafrumvarpið grundvallast á. Það er nýmæli. Það var orðað af hálfu stjórnarandstöðunnar að úr því svo væri í pottinn búið að ný ríkisstjórn teldi sig þurfa lengri tíma væri hugsanlegt að fresta gildistöku þess ákvæðis, um tekjuöflunarfrumvörpin, sérstaklega um einhvern tíma þannig að þing yrði sett á réttum tíma, þ.e. að fjárlagafrumvarpið kæmi fram en tekjuöflunarfrumvörpin kæmu eitthvað síðar. Þá var það ekki nógu gott og kom í ljós að það var auðvitað fjárlagafrumvarpið sjálft sem hæstv. ríkisstjórn er í vandræðum með að koma með í septembermánuði eins og þingsköp kveða á um.

Það hefur heyrst sagt í þessari umræðu að ákvæði um að tekjuöflunarfrumvörpin komi samhliða fjárlagafrumvarpi hafi verið frestað. Það er ekki rétt, það er ekki nákvæm frásögn af sannleikanum. Það var þannig að þegar þingskapalögin tóku gildi vorið 2012, með ákvæði um samkomudag Alþingis, var strax frá byrjun gert ráð fyrir því að þetta ákvæði um tekjuöflunarfrumvörpin tæki gildi síðar, þ.e. 1. september 2013. Því ákvæði hefur ekkert verið frestað, gildistöku þess, það var upprunalega þannig í því frumvarpi sem lagt var fram vorið 2012 og varð að lögum með samþykkt Alþingis. Þannig að því ákvæði hefur aldrei verið frestað. Þannig var lagt upp með málið. Af hverju var það? Það var vegna þess að fjármálaráðuneytið upplýsti okkur í þingskapanefndinni um það að ef það ákvæði ætti að taka gildi um leið og þingsköpin að öðru leyti væri svigrúmið til að undirbúa þá breytingu fyrir fjármálaráðuneytið býsna lítið, þeir þyrftu lengri tíma. Staðan var nefnilega sú að á vormánuðum 2012 var búið að leggja mikla vinnu í fjárlagafrumvarpið, þá þegar eins og alltaf er. Þess vegna ákvað þingskapanefndin að leggja til að þetta ákvæði tæki gildi síðar, ári síðar, til að gefa þetta svigrúm fyrir ráðuneytið að undirbúa þær breytingar.

Það kom engin fram í nefndinni og sagði: Ja, 2013 er nú kosningaár og aðrir flokkar gætu verið í ríkisstjórn og þeir þyrftu lengri tíma til að undirbúa þetta. Þau sjónarmið heyrðust ekki í nefndinni, ekki einu sinni frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem höfðu áreiðanlega á þeim tíma væntingar um að komast í ríkisstjórn. Þannig að þetta er býsna seint fram komið, frú forseti, að mínu viti hér á allra síðustu dögum þingsins, að fresta þingsetningunni nú í haust. Ég tel að þær röksemdir sem færðar eru fram séu frekar léttvægar eins og rakið er í nefndaráliti 2. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Nú er það viðhorf einnig uppi, og ég hef heyrt það í þessari umræðu, að það sé mikilvægara grundvallaratriði að fjárlagafrumvarpið og tekjuöflunarfrumvörpin komi fram samhliða heldur en hvort þau komi nákvæmlega fram 10. september eða 1. október. Þetta er sjónarmið sem á alveg rétt á sér, en ég er ekki sammála því. Ástæðan er þessi:

Það sem hér gerist er að það er fyrst og fremst dregið úr þeim tíma sem þingið sjálft hefur til að vinna fjárlagafrumvarpið og fara yfir það. Það er verið að stytta þann tíma um þrjár vikur. Það munar um þann tíma fyrir Alþingi sem hefur ekki nema örfáar vikur til að fjalla um fjárlagafrumvarpið allt. Í mínum huga hefði verið leikur einn að þingið hefði komið saman 10. september með fjárlagafrumvarpi og þó menn hefðu frestað gildistöku ákvæðisins um tekjuöflunarfrumvörpin, t.d. til 1. október, þannig að þau hefðu komið eitthvað seinna inn í þingið, hefði það ekki verið frágangssök að minni hyggju. Ég hefði stutt slíkar breytingar til að liðka fyrir þeim sjónarmiðum sem ríkisstjórnin heldur fram í þessari umræðu.

En mér finnst ekki hægt að taka þennan tíma af Alþingi og fjárlaganefnd Alþingis. Það er skref aftur á bak. Samkomudegi Alþingis var flýtt og septemberþingið tekið af, ekki síst í því augnamiði að tryggja betri og lengri vinnu fyrir þingið í fjárlagagerðinni. Okkur veitir ekkert af því. Þetta þýðir að sjálfsögðu að fjárlagavinnan mun dragast eitthvað lengur og færast nær áramótum, geri ég ráð fyrir, frá því sem verið hefur. Nú er gert ráð fyrir því að fjárlög séu afgreidd í annarri viku desembermánaðar, á bilinu 10.–15. desember. Þessi töf mun ugglaust þýða að sú vinna dregst enn frekar sem er slæmt fyrir alla þá sem búa við fjárveitingar af fjárlögum ríkisins, að fá ekki vissu fyrir því hvaða fjárveitingar þeir hafa á árinu 2014 fyrr en kannski er komið að jólum eða jafnvel milli jóla og nýárs.

Þetta er ávísun á lakari vinnubrögð af hálfu Alþingis. Það var það sem við vorum að reyna að fara frá með þeim breytingum sem gerðar voru á þingsköpunum á síðasta ári og á árinu þar áður. Af þessum sökum get ég ekki tekið undir og styð ekki þær breytingar sem hér eru lagðar fram, það eru bæði efnislegir þættir málsins, vinnutíminn sem Alþingi þarf á að halda og að sjálfsögðu sú staðreynd að hér er farið fram með breytingar á þingsköpum í andstöðu við stjórnarandstöðuna. Ekki er tryggt að allir flokkar komi að málum og flytji breytingar á þingsköpum eins og eðlilegt hefði verið.

Reglan hefur verið sú að forseti Alþingis og formenn þingflokka eða forsætisnefnd Alþingis eða þingskapanefnd, þegar hún hefur verið að störfum, flytji breytingartillögur við þingsköpin. (Gripið fram í: Í sátt.) Í sátt. (Gripið fram í.) Það var gert nákvæmlega með þingsköpum 2011 og 2012, hv. þm. Jón Gunnarsson. (Gripið fram í.) Þess vegna harma ég að ríkisstjórnarflokkarnir taka ákvörðun um þetta nú. Mér finnst það ekki vera ávísun á þann vilja sem forustumenn ríkisstjórnarflokkanna létu koma fram strax í upphafi þegar þeir tóku við völdum og í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þ.e. að auka ætti samstarf og samvinnu á vettvangi Alþingis. Þegar fyrst reynir á það, í þingsköpunum sjálfum hér á Alþingi, reynast þau orð ekki mikils virði.

Ég vil þess vegna, frú forseti, hvetja stjórnarliða til að hugsa þetta mál mjög vandlega og rækilega. Hvort sem þeir gera, hvort sem þeir kjósa í þessari atrennu, ef svo má segja, að styðja þetta frumvarp, hvet ég þá engu að síður til að hugsa um það hvernig þeir vilja standa að þessum málum hér eftir í framtíðinni, inn á næsta þing. Hæstv. fjármálaráðherra lýsti því yfir í 1. umr. málsins að stefnt væri að því að þingskapanefnd verði starfandi á næsta þingi. Ég trúi því að við það verði staðið. Ég hef að minnsta kosti ekki reynt formann Sjálfstæðisflokksins að öðru en fullum heilindum í samstarfi við hann sem hefur verið nokkurt undanfarin ár, þannig að ég trúi því að við það verði staðið.

Við höfum líka lagt áherslu á það, og það var gert á síðasta kjörtímabili, að tryggja að allir stjórnmálaflokkar, allar stjórnmálahreyfingar sem eiga fulltrúa á Alþingi, eigi aðkomu að þingskapanefnd. Sömuleiðis var það tryggt á síðasta kjörtímabili að bæði stjórn og stjórnarandstaða skipuðu forustu nefndarinnar.

Ég ber þá von í brjósti að þetta sé, eins og breytingin sjálf á að vera, einskiptisaðgerð þannig að við þurfum ekki að búast við því að farið verð inn í framtíðina, inn í þetta kjörtímabil, með það að leiðarljósi að gera breytingar á þingsköpum öðruvísi en um þær sé samstaða.

Þetta vildi ég, frú forseti, láta koma fram í umræðunni um þetta mál hér og nú og ætla ekki að lengja mál mitt frekar. Ég harma að frumvarpið sé komið fram með þeim hætti sem raun ber vitni. Ég tel að í samtölum forustumanna stjórnmálaflokkanna um þetta mál hafi ýmis sjónarmið verði viðruð og ýmsar hugmyndir um aðra lausn sem breiðari samstaða hefði getað tekist um, en því miður náðist það ekki. Skoðanir voru bersýnilega of skiptar til þess. Í öllu falli er það von mín að þetta sé ekki upphafið að sambærilegum vinnubrögðum til framtíðar. Ég reyndar trúi því eftir samtöl þingflokksformanna, sem ég tók þátt í og átti viðræður við þingflokksformenn annarra flokka, meðal annars stjórnarflokkanna, að þetta sé ekki það sem menn ætla að leggja upp með inn í kjörtímabilið. En ég er mjög ósáttur við það hvernig þetta mál er komið fram og treysti mér ekki til að standa að samþykkt þess.