142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:13]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir snúa dálítið út úr orðum mínum. (Gripið fram í: Það getur ekki verið.)(RR: Finnst þér það?) — Já, mér þykir það, frú forseti. Það kom skýrt fram í máli mínu að ég teldi að það ætti að halda sig við samkomudag Alþingis 10. september. Fjárlagafrumvarp og tekjuöflunarfrumvörpin ættu að koma þar fram og ég hef ekki verið sammála þeim viðhorfum að ríkisstjórnin hafi ekki haft nægan tíma.

En eins og hv. þingmaður veit er ég nú í hópi lausnamiðaðra þingmanna. Þegar ríkisstjórnin kom fram með þau sjónarmið að vegna kosninga og vegna þess að það hefði tekið tiltekinn tíma að mynda ríkisstjórn o.s.frv. þyrfti hún lengri tíma þá skelli ég ekki aftur eyrunum og neita að hlusta á það. Það þýðir ekki að ég sé endilega sammála, en maður getur verið reiðubúinn til að leita lausna.

Mér finnst alla vega betra fyrir vinnu Alþingis við fjárlagafrumvarp og tekjuöflunarfrumvörpin að þingið komi saman 10. september og fjárlagafrumvarpið verði lagt fram, það er alla vega sá áfangi, jafnvel þó tekjuöflunarfrumvörpin kæmu 1. október — eins og er greinilega dagsetningin sem miðað er við, það eru þá einhverjar þrjár vikur — frekar en að hvort tveggja frestist í þrjár vikur. Ég tel að það séu alla vega minni frávik frá því sem lagt er upp með.

Svo verð ég að minna á að ákvæðið um að tekjuöflunarfrumvörpin skyldu fylgja fjárlagafrumvarpi kom fyrst inn í þingsköp vorið 2012 með gildistöku 1. september 2013. Fram að þeim tíma, fram að þessu ári, hefur sá háttur verið á um langt skeið að tekjuöflunarfrumvörpin hafa verið að koma talsvert á eftir fjárlagafrumvarpinu. Það er ekkert bara í tíð síðustu ríkisstjórnar, þannig hefur það verið lengi. Þessu vildum við breyta og vildum koma þessu fyrr inn í þingið. Ég var reiðubúinn til að teygja mig, eigum við að segja til hálfs, (Forseti hringir.) til móts við hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, en ekki alla leið, en hún kýs, (Forseti hringir.) og hennar þingmeirihluti, að ganga alla leið.