142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

þingsköp Alþingis.

30. mál
[20:59]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þó að ég hafi ekki mikla þingreynslu, en þó meiri en margir, hygg ég að það sé harla óvenjulegt að farið sé fram á slíka beiðni. Ég vil því taka undir orð þingmanna minni hlutans sem hafa tjáð sig hér og eru margir hverjir með töluvert meiri reynslu af þingsköpum og hefðum á Alþingi.

Mér finnst svolítið skringilegt að verið sé að leggja upp með og í raun og veru segja þinginu að fjárlögin verði ekki tilbúin á tilsettum tíma af því að það var minn skilningur að þau yrðu það. Þegar formaður Sjálfstæðisflokksins fór þess á leit við mig sem og aðra í minni hlutanum að sýna skilning á því að það væri erfitt að koma með fylgifrumvörpin á tilsettum tíma sá ég ekkert að því að sýna því skilning. En nú þegar á sumarþingi virðist það ætla að verða sorgleg hefð að manni er sýnd ein mynd og síðan er eitthvað allt annað að baki hennar. Mér líst ekkert á það.

Ég kom inn á þetta þing staðráðin í því að vinna út frá málefnum, vera málefnaleg og sýna sanngirni en mér finnst mjög erfitt að vera sanngjörn þegar strax er farið út í það að — ja, mér finnst leiðinlegt að nota stór orð, en í tvígang í dag hafa komið upp þannig mál að ég upplifi að gengið sé á bak þess sem var búið að sammælast um og mér finnst það ömurlegt upphaf á þessu þingi. Mér finnst það hvernig þetta hefur þróast í þinginu líka vera ömurlegt og sorglegt og gefur manni tilefni til að hafa verulega þungar áhyggjur af því hvernig næstu fjögur ár verða. Ég vona að þetta sé ekki upphafið að samfelldum svikabrögðum, ég vona það, en það sem ég hef orðið vitni að í dag finnst mér vera þess eðlis að þingið verði fullt af tortryggni, það verði fullt af átökum sem eru óþörf. Við erum hér öll samankomin til að gera einn hlut og það er að tryggja hagsmuni þjóðarinnar og við höfum val um það hvernig við vinnum saman. Við höfum valkost og það sem er að gerast hér núna og búið er að gerast er ekki til þess fallið að hér ríki sá góði andi og þau góðu fyrirheit sem lagt var upp með. Það hryggir mig.

Ég hef skilning á því að þegar ný ríkisstjórn tekur við sem er að taka við ágætisbúi og ætlar síðan að breyta mjög miklu sem lýtur að fjárlögum þurfi mikla vinnu við að endurstilla allt. En ég verð samt að segja að þetta er á ábyrgð framkvæmdarvaldsins og ef framkvæmdarvaldið hefur ekki tök á því að fá starfsfólk — það getur bara ráðið fólk í aukavinnu ef það vantar svona mikið upp á til að klára málin — getur fólk frestað því eða sleppt því að fara í frí og gert það seinna, eins og hæstv. ráðherra sem hér fer með málið, ef mikið vantar upp á til að klára þetta. Við höfum alltaf verið vertíðarþjóð og ef það koma mikil uppgrip eru bara ráðnir fleiri, þá koma fleiri upp á dekk eða inn í frystihús.

Mér finnst þetta ekki nógu góð afsökun til þess að fresta fjárlögunum. Ég skil þetta með fylgifrumvörpin en að fresta sjálfum fjárlögunum mun stela tíma frá okkur þingmönnum til vinnunnar. Ég hef gagnrýnt vinnubrögðin mjög í gegnum tíðina. Mér finnst mjög leiðinlegt að standa hér og vera eins og rispuð plata, en vinnubrögðin, sem allir gagnrýna en enginn er tilbúinn til að gera neitt í þegar þeir taka við stjórnartaumunum, eru ekki boðleg. Það er ekki boðlegt að við séum að taka mál hér í gegn með þessum hætti. Auðvitað hefði þetta mál átt að fara fyrir þingskapanefnd, auðvitað hefðum við átt að vera búin að setja saman þingskapanefnd til að fara yfir málið. En nei, það er ákveðið að gera allt eftir nákvæmlega sömu formúlum og hafa verið notaðar hér um allt of langa hríð, áratug eftir áratug.

Þetta snýst í raun og veru um að viðhalda valdinu. Illa upplýstir þingmenn eru ágætisstimpilpúðar. Viljum við vera þannig þingmenn, hvort sem fólk er í stjórn eða stjórnarandstöðu eða minni hluta eða meiri hluta? Er þetta það sem við þingmenn buðum okkur fram til að gera? Það held ég ekki. Það gerist allt of oft í þessum sal að farið er í gegnum mál og greidd atkvæði um mjög mikilvæg lög sem snerta þúsundir Íslendinga og hv. þingmenn hafa ekki hugmynd um, vita ekki neitt hvað það er sem þeir eru að greiða atkvæði um. Lögin eru oft svo illa gerð og það er nú sagt að ein ástæða fyrir því að við erum svona rosalega lengi hér sé sú að við vinnum lögin svo illa. Það er kominn tími til að breyta vinnubrögðunum.

Ég á mjög erfitt að styðja þetta mál eins og þetta er en ég mun ekki standa í vegi fyrir því. Jú, kannski. Jú. Hæstv. forseti. Ég held að ég muni bara segja nei.