142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[21:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir breytingartillögu á þskj. 79, mál nr. 25, við frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum, um frítekjumörk, tekjutengingar og eftirlitsheimildir.

Breytingartillagan er svohljóðandi:

„Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:

Í stað ártalsins „2013“ í 14. tölulið ákvæðis til bráðabirgða í lögunum kemur: 2014.“

Með tillögunni er lagt til að bráðabirgðaákvæði um hækkun á frítekjumarki öryrkja í 1.315.200 kr. vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar verði framlengt um eitt ár, til 2014. Ástæða þess að þetta er lagt til er mikilvægi þess að jákvæðir hvatar séu til atvinnuþátttöku aldraðra og öryrkja. Er það í samræmi við þá hugsun sem fram kemur í frumvarpinu. Talið er rétt að gera þetta ákvæði ekki varanlegt þar sem mörkuð hefur verið sú stefna að innleiða nýtt kerfi sem byggist á því að koma betur til móts við þá sem mest þurfa á þessu að halda. Með því að staðfesta framlenginguna núna eru gefin skýr skilaboð um að unnið skuli áfram að þeirri heildarskoðun sem gera þarf á almannatryggingakerfinu og koma í veg fyrir að óvissa skapist um þessi mál.

Flutningsmenn eru, ásamt þeirri sem hér stendur, hv. þingmenn Ásmundur Friðriksson, Elín Hirst, Páll Jóhann Pálsson og Unnur Brá Konráðsdóttir.