142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[21:09]
Horfa

Þorsteinn Magnússon (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þær árnaðaróskir sem mér hafa verið færðar eftir að ég tók sæti á Alþingi. Það er mér ánægjuefni að verja minni fyrstu ræðu í að segja nokkur orð um það frumvarp sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hefur lagt fram og er hér til umræðu.

Frá árinu 2009 þurftu lífeyrisþegar að sæta verulegum kjaraskerðingum vegna aðgerða sem gripið var til í kjölfar þeirrar erfiðu stöðu sem þá var komin upp í ríkisfjármálum. Verði frumvarp þetta að lögum mun það fela í sér fyrsta skrefið í þá átt að draga þær skerðingar til baka. Þannig munu greiðslur til um 7 þús. lífeyrisþega hækka, frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega hækka verulega og lífeyristekjur munu ekki lengur skerða grunnlífeyri almannatrygginga.

Jafnframt hefur komið fram að þegar sé hafinn undirbúningur að afnámi annarra skerðinga sem lífeyrisþegar þurftu að sæta. Það er mikilvægt að hafa í huga að væntanlega verða fleiri skref stigin í þessa sömu átt.

Því ber að fagna að nú sé unnt að stíga það skref sem hér er lagt til og forgangsraða þannig í þágu hóps lífeyrisþega sem þurfti að sæta miklum kjaraskerðingum í kjölfar þeirra efnahagsþrenginga sem riðu hér yfir haustið 2008.