142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[21:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Freyju Haraldsdóttur fyrir hennar orð og ræðu. Ég talaði um samráð í þeirri nefnd sem ég sat í sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem hafði það verkefni að samræma lífeyri frá lífeyrissjóðum og frá almannatryggingum. Öryrkjabandalagið byrjaði að vinna með okkur en síðan hurfu þeir á braut. Það þótti mér mjög miður vegna þess að við vorum að vinna að framtíðarskipulagningu þessa samspils á milli lífeyrissjóða og almannatrygginga, en þeir settu fyrir sig það að lífeyrir hafði ekki verið hækkaður. Það finnst mér vera allt annað mál. Ég var eingöngu að kvarta yfir því að þeir hefðu ekki fylgt eigin einkunnarorðum sem eru: Ekkert um okkur án okkar, sem mér finnst vera afskaplega góð einkunnarorð.

Það voru fleiri fulltrúar fatlaðra í nefndinni, þeir stóðu vaktina til enda. En vegna þess arna var ekki hægt að taka á einu veigamesta atriði öryrkja sem ég tel vera, sem er að hætta að líta á vangetuna og fara að líta á getuna, þ.e. líta á það hvað einstaklingurinn getur en ekki hvað hann getur ekki. Það tel ég vera eitt almikilvægasta verkefnið fyrir bæði öryrkja og þjóðfélagið í heild að þjóðfélagið nýti getu öryrkja, sem eru afskaplega verðmætir starfskraftar, nýti getu öryrkja þeim til hagsbóta og þjóðfélaginu til hagsbóta.

Það var þetta sem ég átti við þegar ég kvartaði undan því að Öryrkjabandalagið hefði farið út, vegna þess að þetta var hluti af því að leysa vandamál hvað varðar öryrkja sem er óleyst í dag.