142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[21:17]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir gott andsvar. Ég er hjartanlega sammála flestu sem þar kom fram og tel að sjálfsögðu mjög mikilvægt að við sem störfum innan hagsmunasamtaka eða einhvers konar fyrirtækja sem hafa það að markmiði að berjast fyrir réttindum fatlaðs fólks komum að borðinu og tökum ábyrgð á þeirri vinnu með því að krefjast þess að koma þar að og vera við borðið.

Það sem ég vildi kannski meina var að þó maður ákveði að stíga frá er það kannski ákveðin leið samráðs. Þá gefur maður ákveðin skilaboð um að maður telji að það sem á sér stað gangi ekki nógu langt eða maður treystir sér ekki til að vera með í einhverju verkefni sem maður telur ekki þjóna nógu vel hagsmunum þeirra sem barist er fyrir.

Hins vegar er ég hjartanlega sammála því að í lengstu lög eigum við að reyna að vinna saman og ná sátt. Ég held að þetta sé bara mjög gott dæmi um mikilvægi þess að við tölum saman.

Ég vil sérstaklega fagna því sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði um að nýta og í rauninni fagna mannauði fatlaðs fólks og annarra sem flokkast sem öryrkjar og horfa á getu okkar og það sem við höfum hæfileika til að gera en ekki það sem er ekki hægt. Það er klárlega aðalatriðið í heila málinu.