142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[21:35]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Í dag á lokametrum þessa máls kom fram breytingartillaga frá meiri hlutanum þess efnis að lækka ætti enn þann hlut sem kemur til þjóðarinnar, í þetta skipti um 400 millj. kr. króna. En þetta er litla atriðið. Þessi gjöld munu lækka á næsta ári um minnst 3 milljarða, mögulega 4, þeir eru alla vega 3, um það deila menn ekki. (Gripið fram í.) Þetta er kannski 15% af lækkuninni sem var lagt upp með í dag.

Ég talaði einmitt um það fyrr í ræðu minni í dag hvað það þýddi að leggja þessa tillögu fram á lokametrunum í trássi við það samkomulag sem Píratar stóðu ekki að en aðrir minnihlutaflokkar stóðu að um að ljúka þinginu núna í kvöld og hvers vegna er verið að koma með hana á lokametrunum og setja samkomulagið allt saman í uppnám.

Ég velti fyrir mér hvort þetta væru einhver mistök, hvort hv. formaður atvinnuveganefndar, Jón Gunnarsson, hefði mögulega farið fram með tillöguna sjálfur eða einhverjir aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eða hvort þetta væri einhver stærri leikur eða leikflétta í gangi. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort það var í raun og veru. En við sjáum hvernig þeir spila úr þessu núna. Það að draga tillöguna til baka er kallað að leggja fram sáttarhönd. Í upphafi eru menn búnir að minnka þann hlut sem kemur til þjóðarinnar um 3 milljarða og reyna svo alveg á lokametrunum að minnka hann örlítið meira, um að minnsta kosti 400 millj. kr. og draga það svo til baka og kalla það sáttarhönd í málinu.

Það er mjög skemmtilegt að heyra þetta, en ég mundi ekki kalla þessi vinnubrögð sáttarhönd, alls ekki. En mögulega má spinna það þannig og kannski munu fjölmiðlar pikka þetta upp og kalla það að Sjálfstæðisflokkurinn eða ríkisstjórnin hafi rétt fram sáttarhönd í málinu. Það verður áhugavert að sjá. Maður er alltaf að læra eitthvað.

Þannig er staðan með málið núna. Það verður líklega samþykkt í kvöld af meiri hlutanum og þá endar það á borði forseta sem er á landinu. Samkvæmt nýlegri könnun eru 70% þjóðarinnar á móti þessari lækkun á veiðigjaldi — þá erum við að tala um þessar 3 milljónir á næsta ári og kannski upp í 9 milljónir í heildina á árinu þar á eftir. (JónG: Milljarða.) Fyrirgefið, milljarða. Ég þakka formanni atvinnuveganefndar, Jóni Gunnarssyni, fyrir að leiðrétta mig þarna. Að sjálfsögðu milljarðar. Þetta eru engar smátölur eins og hann veit.

En 70% þjóðarinnar eru á móti þessari lækkun á þeim hlut sem kemur til þjóðarinnar. Þjóðin á auðlindina, þjóðin á að eiga lokaorðið um sinn hlut af nýtingu auðlindarinnar og það sagði forsetinn á síðasta ári. Við skulum vona að hann sé sama sinnis í dag og svari kalli 35 þús. Íslendinga sem hafa núna með undirskrift sinni skorað á forsetann að synja þessum lögum staðfestingar og vísa þeim til þjóðarinnar.

Við píratar erum að sjálfsögðu hlynntir því að fólk eigi að koma að ákvörðunum sem varðar það. Sú ákvörðun að minnka hlut þjóðarinnar um 9 milljarða á næstu tveimur árum, um 3 milljarða á næsta ári, er að sjálfsögðu ákvörðun sem þjóðin á að fá að koma að og þjóðin á að fá að eiga lokaorð um.

Við píratar munum funda með forsetanum á morgun um framgöngu beins lýðræðis og hvernig er best hægt að vinna að vegferð þess á Íslandi. Við munum náttúrlega ræða um þetta atriði eins og önnur þó að við séum að ræða stærra samhengi hlutanna. Það verður áhugavert að heyra hvað forsetinn hefur að segja.