142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[21:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að segja að mér finnst hv. þm. Jón Þór Ólafsson, sem á sæti í atvinnuveganefnd sem áheyrnarfulltrúi og hefur setið þar ötullega fundi með okkur að undanförnu til að fjalla um þetta mál, fara ansi frjálslega með tölur þegar kemur að því að fara yfir þær.

Ég vil spyrja hv. þingmann aðeins út í þetta. Hann talar um að tekjurnar minnki núna strax um allt að 4 milljarða, þegar það kemur greinilega fram í umsögn fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, að teknu tilliti til aukinna tekjuskattsgreiðslna, að talan sé 2,6 milljarðar. Sú upphæð sem ríkið hefur minna í tekjur á næsta ári af veiðigjöldum er talin samkvæmt frumvarpinu vera um 6,4 milljarðar. Fjármálaskrifstofan í sinni umsögn nefnir ekki þar töluna um auknar tekjuskattsgreiðslur sem kæmu í ríkissjóð á móti. Ef við gefum okkur að tekjurnar minnki um 6,4 milljarða á næsta ári og 3,2 á þessu ári, og það sé í sama hlutfalli, eru það tæpir 2 milljarðar sem dragast frá þessum 9,6 milljörðum. Þá erum við komin niður undir 7,5 milljarða.

Ég vil bara vita hvort hv. þingmaður sé ekki sammála mér um þessar tölur, vegna þess að það er mikilvægt að við förum ekki hér með fleipur heldur höldum okkur við staðreyndir.

Það má síðan færa mikil og sterk rök fyrir því að minnkandi gjaldtaka muni leiða til mjög aukinnar fjárfestingar í sjávarútvegi. Það mun síðan skila sér með auknum gjöldum til ríkissjóðs í gegnum atvinnusköpun og verðmætasköpun (Forseti hringir.) sem þar verður.

Þess vegna hefði verið mjög gott að fá álit Hagfræðistofnunar (Forseti hringir.) sem treysti sér reyndar ekki til að skila slíku áliti núna á sumarþingi. En þetta mundi auðvitað verða niðurstaðan (Forseti hringir.) hjá hvaða hagfræðingi sem er sem fjallaði um þetta af sanngirni.