142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[21:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þarf nú ekki að vera neinn sérfræðingur í þessum málum, maður þarf bara að vera læs, og það gef ég mér að hv. þingmaður sé, vegna þess að þessar tölur standa skýrum stöfum í frumvarpinu í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Þetta eru því 2,6 milljarðar. Þar er ekki tekið tillit til þess hvað minni gjaldtaka muni þýða fyrir atvinnugreinina og hversu mikið hún muni örva fjárfestingu í greininni. Þá eigum við eftir að meta þau efnahagslegu áhrif, en þau eru umtalsverð. Þetta mun koma fram í sterkari grein þar sem fjárfest er meira. Það munu auðvitað allir hagfræðingar sem um málið mundu fjalla geta reiknað út fyrir okkur, en það tekur lengri tíma en við höfum núna.

Það er annað sem mig langar að spyrja hv. þingmann um. Hann tilkynnir okkur það hér að Píratar hyggist funda með forseta Íslands á morgun og hvetja til þess að málið verði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú vil ég inna hv. þm. Jón Þór Ólafsson eftir því hvað hann hyggist fá út úr slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef forsetinn neitar að staðfesta lögin yrði að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu. Það tæki okkur einhverjar vikur, sennilega mánuði, tvo mánuði, það krefst mikils undirbúnings að halda þjóðaratkvæðagreiðslu og kostar um 250 milljónir.

Ef lögin yrðu felld í þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að þeim yrði synjað staðfestingar, sætum við uppi með að ekki yrði hægt að innheimta neitt sérstakt veiðigjald á næsta fiskveiðiári. Það yrði margra milljarða tjón. Heldur hv. þingmaður að það sé vilji þeirra sem skrifuðu undir? Eða getur verið að þeir séu meira að lýsa skoðunum sínum, sem ég ber fulla virðingu fyrir og tek fullt mark á og finnst vera skýr skilaboð til okkar þingmanna og hef aðeins farið (Forseti hringir.) yfir það í ræðum mínum, en heldur hv. þingmaður (Forseti hringir.) að það yrði ásættanleg niðurstaða?