142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[21:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér fer fram 3. umr. um það frumvarp sem liggur fyrir þinginu um breytingar á stjórnarskrá Íslands. Það er rétt að taka það fram í upphafi að Framsóknarflokkurinn hefur ávallt stutt stjórnarskrárbreytingar og þess ber að geta að það er ákvæði í stjórnarsáttmála Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins um að auðlindaákvæði skuli koma inn í stjórnarskrána og hefur það verið skoðun Framsóknarflokksins um langa hríð.

Mig langar, virðulegi forseti, að leiðrétta hér villandi umræður sem hafa átt sér stað um þetta frumvarp. Flutningsmenn þess hafa látið líta svo út fyrir að ekki sé hægt að halda áfram vinnu við breytingar á stjórnarskránni á þessu kjörtímabili nema þetta frumvarp verði samþykkt.

Virðulegi forseti. Ég hafna slíkum röksemdafærslum sem hafa trekk í trekk komið fram í fjölmiðlum á meðan þetta frumvarp hefur verið til umræðu. Það er skylda löggjafans, skylda þeirra 63 þingmanna sem sitja á þingi hverju sinni, að hafa sífellt gætur á breytingum á stjórnarskránni og vinna að þeim breytingum, því löggjafinn fer með stjórnskipunarvaldið sem telur tvö þing samtals. Stjórnskipunarvaldið er stærra en löggjafarvaldið eins og ég hef svo oft farið yfir.

Mikið af gögnum liggur fyrir nú þegar. Þau gögn liggja fyrir sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem nú hefur látið af störfum og starfaði á síðasta þingi, hafði viðað að sér varðandi það ferli sem fór af stað á síðasta kjörtímabili. Að sjálfsögðu liggja þau gögn til grundvallar áframhaldandi endurskoðun á þeim ákvæðum sem þarf að breyta í stjórnarskránni.

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem nú liggur fyrir breytir því ekki að vinnan haldi áfram. Þess vegna vil ég leiðrétta þann halla sem er á umræðunni um stjórnskipunarmál landsins. Hins vegar er frumvarpið sem nú liggur fyrir byggt upp á þann hátt að gert er ráð fyrir bráðabirgðabreytingarákvæði við stjórnarskrána sem á að gilda næstu fjögur ár. Það á að standa jafnfætis breytingarákvæði stjórnarskrárinnar eins og það er í dag. Verði þetta frumvarp samþykkt koma því til með að vera í gildi tvö breytingarákvæði að stjórnarskránni.

Virðulegi forseti. Stjórnarskráin er æðstu lög landsins. Um hana ber að standa vörð og stjórnarskránni á ekki að vera hægt að breyta auðveldlega. Það er einlæg skoðun mín, virðulegi forseti, að stjórnarskránni eigi að vera mjög erfitt að breyta svo hún standist áhlaup pólitískra hugrenninga og pólitískra álitamála sem upp koma. Það er nákvæmlega það sem stjórnarskráin stóðst á síðasta kjörtímabili.

Þetta breytingarákvæði er líklega lagt fram svo hægt sé að fara í hugsanlegar breytingar á stjórnarskránni innan þeirra fjögurra ára sem kveðið er á um í stjórnarskránni eins og hún er nú. Ég er því afar mótfallin í ljósi þess að stjórnarskráin á að standa af sér pólitískar árásir, ef svo má segja. Hér á eftir verða greidd atkvæði um frumvarpið og vil ég skýra frá því hér í ræðustól, og ætla því að sleppa atkvæðaskýringu þegar greidd verða atkvæði um frumvarpið, að ég kem til með að greiða því mótatkvæði mitt.

Það vill svo til, virðulegi forseti, að ekki hafa verið færð rök fyrir því að brýn nauðsyn krefji að setja þetta breytingarákvæði í stjórnarskrána að svo stöddu vegna þess að það eru engin brýn mál eða aðkallandi sem þjóðin stendur frammi fyrir sem gera að verkum að breyta þurfi stjórnarskránni innan fjögurra ára. Í það minnsta hafa slík rök ekki borist til minna eyrna og þau hef ég ekki heyrt hér í umræðunni. Þess vegna lít ég svo á að þetta bráðabirgðabreytingarákvæði sé mjög til óþurftar og geri raunverulega það að verkum að þingið hafi sífellt inni í þingsal öll næstu fjögur ár einhvers konar hugsanlegar breytingartillögur. Það truflar að mínu mati þingstörf því að það er jú sérstök nefnd í þinginu, skipuð þingmönnum, sem á að fjalla um þessi mál.

Því segi ég, virðulegi forseti, að það er ekki réttlætanlegt að frumvarpið verði samþykkt að mínu mati, miðað við gildandi stjórnskipunarrétt og stjórnskipunarrétt í nágrannalöndunum sem við berum okkur saman við, því að sú brýna nauðsyn sem þyrfti að vera rökstuðningur fyrir breytingarákvæðinu, sem er þar að auki bráðabirgðaákvæði, er ekki til staðar. Því undrast ég mjög að þetta skuli vera komið fram, en að vísu, eins og flestir vita, þarf frumvarpið að koma fyrir nýtt þing eins og verið er að gera hér. Ég vonast til að það fái frekar lítinn stuðning í þinginu, því að þetta frumvarp var samþykkt með einungis 25 atkvæðum á fyrra þingi, ekki einu sinni meiri hluta þingmanna. Það er einkennilegt að svo veikur stuðningur sé við breytingar á stjórnarskránni því eins og ég hef alltaf sagt verður að vera víðtæk sátt í þinginu um breytingar á stjórnarskránni svo að friður skapist um þetta æðsta plagg þjóðarinnar, sjálfa stjórnarskrána.