142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[22:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég varð þeirrar lífsreynslu aðnjótandi að sitja einu sinni með hv. þm. Birgi Ármannssyni í stjórnarskrárnefnd. Ég minnist þess að hann var giska fastur og harður í ístaðinu þegar kom að breytingum á stjórnarskrá. Ég spurði hann einu sinni hversu oft hann teldi að það væri í reynd eðlilegt að breyta stjórnarskrá. Hann sagði: Ekki mjög oft. Ég spurði: Hvað oft? Ja, sagði hann, svona einu sinni á öld. Þetta ágæta svar lýsir kannski íhaldssemi þessa hv. þingmanns gagnvart stjórnarskrá. Ég er auðvitað sammála honum um að það á ekki að vera of auðvelt að breyta stjórnarskrá. Ég er líka sammála honum um að það eigi að reyna að setja niður þær deilur sem hafa um hana hafa sprottið. Ég tel ekki að sú þessi breyting sem við erum vonandi að fara að samþykkja leiði til neinna langvarandi deilna eða menn misnoti hana með einhverjum hætti.

Hv. þingmaður sagði hins vegar að í ljósi þess að hér væru þingmenn og þingflokkar að samþykkja þetta ákvæði væri komin víðtæk sátt um þröskuldana. Ég vil þá a.m.k. af því tilefni segja að menn fara eins langt og þeir geta. Við töldum nokkur mjög mikilvægt að ná ákvæðinu fram og það var ekki gerlegt nema fallast á þennan þröskuld. Ég tel að hann sé of hár, en ég kaupi hann að þessu sinni því verði að ná ákvæðinu í gegn.

Að öðru leyti vil ég segja alveg skýrt af minni hálfu að ég tel að ef þetta ætti t.d. að vera einhvers konar fordæmi gagnvart þjóðaratkvæðagreiðslum í framtíðinni er ég ekki á því máli. Ég vil að það sé algjörlega skýrt.

Svo segi ég það að ég tel að það sé happaferð hjá hv. þingmanni að taka þátt í að breyta stjórnarskránni. Ég held að innan tveggja ára muni þessi ríkisstjórn standa frammi fyrir því að hún þurfi annaðhvort að breyta stjórnarskránni eða silast með Ísland hægt og hægt út úr EES.