142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[22:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við hv. þm. Össur Skarphéðinsson eigum það sameiginlegt í þessu máli að hafa báðir gefið nokkuð eftir af ýtrustu kröfum. Það má því segja að sú niðurstaða sem hér birtist sé með vissum hætti málamiðlun og kannski er það einmitt þannig sem menn eiga að vinna að stjórnarskrárbreytingum; að menn reyni að mætast á miðri leið þar sem skoðanir eru skiptar.

Það er ekkert launungarmál að ég hef verið íhaldssamari og tregari til stjórnarskrárbreytinga en margir í þessum sal, bæði nú eftir kosningar og fyrir þær. Ég er hins vegar tilbúinn til að taka þátt í þessari breytingu undir þeim formerkjum að þarna er, þrátt fyrir að breytt sé út frá núgildandi fyrirkomulagi, engu að síður um að ræða ákveðnar tryggingar gagnvart því að lítill meiri hluti geti knúið fram stjórnarskrárbreytingar eða að breytingar sé hægt að gera hugsanlega með tilstilli tiltölulega lítils hóps kjósenda.

Hér er bæði gerð krafa um mikinn stuðning í þinginu og krafa um að stuðningur í samfélaginu sé víðtækur. Ef mál er mjög umdeilt og þjóðin skiptist í tvær fylkingar er í ákvæðinu raunverulega falin krafa um að verulegur hluti, allt að 4/5 hluti, kjósenda á kjörskrá taki þátt í atkvæðagreiðslunni. Mér finnst það mikilvægt vegna þess að mér finnst ekki að menn eigi að breyta stjórnarskránni nema það sé góður stuðningur í þinginu og nema það sé mikill stuðningur og áhugi á málinu hjá þjóðinni.