142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[22:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu en ég má til með að taka rétt aðeins til máls. Við ræðum hér frumvarp sem á að einhverju leyti uppruna sinn í frumvarpi sem ég flutti, þannig að ég gleðst yfir því. Reyndar eru mörkin eilítið lægri. Ég gerði ráð fyrir að 50% þjóðarinnar þyrftu að samþykkja af því ég vil nefnilega að almenn sátt sé um stjórnarskrána. Það eigi bara að vera þannig, það eigi ekkert að keyra ofan í kokið á einhverjum minni hluta breytingar á stjórnarskrá. En ég sætti mig við 40% vegna þess að það er nokkuð hátt og menn geta ekki farið að breyta stjórnarskránni í hverjum mánuði.

Það sem ég vildi segja er að það hafa verið miklar væntingar hjá vissum hópi í þjóðfélaginu um breytingar á stjórnarskrá. Það er búið að vinna óskaplega mikla vinnu, óskaplega mikið starf í stjórnlagaráði og svo hér á þingi o.s.frv., og það væri virkilega sorglegt, herra forseti, ef allt það starf tapaðist.

Nú er ekki víst að allir séu sammála um allt, alls ekki. Ég geri ráð fyrir að menn séu ekkert sammála, en það eru viss atriði sem ég hygg að allir þingmenn geti verið sammála um, t.d. að taka upp eitthvert ákvæði í stjórnarskrá um Hæstarétt. Það er ekki orð um hann í stjórnarskránni. Ég held að allir hljóti að vera sammála um það.

Hv. þm. Birgir Ármannsson fór ítarlega í gegnum það sem ég vildi sagt hafa, þannig að ég er ekkert að segja það aftur. Vegna þess sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði að hér kæmi skriða af frumvörpum um breytingar á stjórnarskrá þá hefur hingað til verið skriða af frumvörpum um breytingar á stjórnarskrá. Þær hafa verið ræddar hérna örstutt um miðja nótt, svo hafa þær farið í nefnd og sofnað þar. Ég geri ekki ráð fyrir að það verði mikil breyting á því.