142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[22:30]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Öll nefndin stóð að nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar og hv. þm. Jón Þór Ólafsson er áheyrnarfulltrúi í nefndinni fyrir þingflokk Pírata. Nefndin hefur í tvígang fundað með fulltrúum Pírata um nefndarálitið og áhyggjur þeirra af því að hér sé verið að fela Seðlabankanum of ítarlegar heimildir til þess að afla upplýsinga um einstaklinga. Nefndarálitið er að sjálfsögðu lögskýringargagn með þeim lögum sem hér verða hugsanlega samþykkt.

Ég ítreka enn og aftur að öll nefndin stendur að álitinu. Ég ætla að fá að lesa nöfn nefndarmanna en þeir eru Frosti Sigurjónsson, Vilhjálmur Bjarnason, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Árni Páll Árnason, Róbert Marshall, Willum Þór Þórsson, Líneik Anna Sævarsdóttir og Edward H. Huijbens. Öll nefndin stendur að álitinu og það er skilningur nefndarinnar að nauðsynlegt sé að veita Seðlabankanum þessar heimildir. Það er líka skilningur nefndarinnar að 4. gr. frumvarpsins feli ekki í sér heimild til að afla upplýsinga hjá einstaklingum og lögaðilum almennt, heldur aðeins þeim sem eru í viðskiptum við Seðlabanka Íslands samkvæmt 6. gr., samanber 7. gr. laganna, fyrirtækjum í greiðslumiðlun og öðrum fyrirtækjum eða aðilum sem lúta opinberu eftirliti samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Ég virði skoðanir Pírata og ég virði frelsi og friðhelgi einstaklinga, en ég tel að í þessu nefndaráliti sem er svo öflugur meiri hluti með sé þetta skýrt og þar hefur verið farið yfir þetta og skoðað. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem verið er að skoða mál af þessum toga. Ég tel að hér liggi fyrir frumvarp sem er hluti af því frumvarpi sem við treystum að áfram verði unnið með um fjármálastöðugleika og fjármálastöðugleikaráð. Þetta sé hluti af stærri heild.

Virðulegi forseti. Sem framsögumaður nefndarinnar, sem ég ítreka enn og aftur er einhuga að baki nefndarálitinu, legg ég til að frumvarpið verði samþykkt.