142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[22:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir svarið og deili áhyggjum hans af upplýsingamiðlun á milli stofnana. Nú erum við hæstv. ráðherra til margra ára í þinginu áhugamenn um það að einfalda stjórnkerfi ríkisins og fækka opinberum stofnunum og sameina þær til að gera þær skilvirkari. Ég lýsi þeirri eindregnu skoðun minni eftir að hafa í fjögur ár haft forustu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd í þinginu að sameining Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins er því sem næst einboðin. Við erum 330 þúsund manns í þessu landi og það er einfaldlega takmarkað hvað það er skynsamlegt fyrir okkur að byggja upp margar stofnanir.

Þetta eru þær tvær stofnanir sem eiga að hafa eftirlit með fjármálakerfinu. Þær voru áður eitt og ég held að það tryggði betur upplýsingaflæði á milli þeirra, árangur og skilvirkt eftirlit ef fyrirkomulagið væri einfaldað með því að sameina þær. Geti menn náð sama árangri með því að auka samstarfið skal ég ekki standa í vegi fyrir því. Ég fagna viðleitni ráðherrans til þess að íhuga þessi mál og gera úrbætur til að efla þær eftirlitsstofnanir sem skipta okkur svo miklu máli.