142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

dagskrártillaga.

[23:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Já, þetta eru óvenjulegar aðstæður, þetta er óvenjulegt mál og þetta eru óvenjulegir tímar almennt sem við lifum núna. Okkur hefur borist umsókn frá herra Snowden, hún barst áðan, og við viljum gera þetta í þverpólitískri sátt. Það hvarflar ekki að okkur að gera þetta öðruvísi vegna þess að við vitum að þetta virkar ekki án þess. Þess vegna viljum við fá málið í nefnd þar sem nefndin skoðar öll gögn málsins og tekur síðan upplýsta ákvörðun eftir það.

Við höfum engan tíma, það er það sem einkennir þetta mál, tímapressa af ýmsu tagi, og það eru ekki það mikið af upplýsingum akkúrat núna. Það er nokkuð sem við þurfum bara að skoða í nefnd. Hendum þessu bara inn í nefnd. Við erum búin að eyða meiri tíma núna í að tala um atkvæðagreiðsluna en við vildum eyða í að drífa málið inn í nefnd og vinna það síðan í þeirri nefnd eftir því sem hún getur.