142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

25. mál
[23:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er svo sannarlega oft sem við í þessum þingsal viljum geta gert betur við þá sem minna mega sín. Því er haldið fram um þetta mál að það komi einkum þeim til góða sem hafa skásta stöðuna meðal eldri borgara og öryrkja. Þá er rétt að halda því til haga að fyrrverandi ríkisstjórn hafði einmitt skert kjör þessara og hlíft hinum sem voru með mestu réttindin. Það er verið að vinda ofan af því með þessum aðgerðum (Gripið fram í.) og koma þannig til móts við þann hóp.

Hér er því haldið fram að þetta sé ekki nóg. Þeir eru rétt nýfarnir frá völdum sem hæst láta í þeirri umræðu og notuðu ekki tímann til að hrinda sínum hugðarefnum í framkvæmd. (SII: Þú veist að þetta er rangt.)(Gripið fram í: Það er allt annað …) Síðan er því haldið fram að núverandi ríkisstjórn hafi fallið frá áformum um að endurskoða tryggingakerfið. Það er einfaldlega úr lausu lofti gripið (Gripið fram í.) en það verður ekki gert á einu sumarþingi. Engu að síður koma þessir sömu þingmenn og styðja frumvarpið en segja það ganga í berhögg við málið sem þeim er svo hjartfólgið. (Forseti hringir.)

Þessi umræða er alveg óskaplega grunn, öfugsnúin og (Gripið fram í.) rökin öll á hvolfi. (Forseti hringir.) (SII: Skætingur.) Nú er kallað fram í að ég sé með skæting. Reyni að benda á einfaldar staðreyndir. (Forseti hringir.) Það væri hægt að halda lengi áfram í þessu máli en kjarni þess (Forseti hringir.) er óskaplega einfaldur, (Forseti hringir.) það er verið að bæta kjör eldri borgara og öryrkja sem fráfarandi ríkisstjórn hafði skert. (Gripið fram í: Skammastu þín.) (Gripið fram í: Skætingur.)