142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[23:41]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er gott að geta gert grein fyrir atkvæði sínu um þetta mál og fjallað um þessa atkvæðagreiðslu rétt á eftir atkvæðagreiðslunni um hin sviknu fyrirheit í garð lífeyrisþega sem við vorum að ganga frá áðan, þar sem ríkisstjórnin stóð ekki við stóru orðin og mætti ekki þeim stóra hópi sem er úrlausnar þurfi. Hér lagði ríkisstjórnin hins vegar lykkju á leið sína til að mæta þeim sem hún taldi helst í þörf fyrir aðstoð hins opinbera á samdráttartímum, (Gripið fram í.) stórútgerðinni. Hún fær hér gjafapakka sérhannaðan frá ríkisstjórninni á sumarþingi. Og hérna sjáum við forgangsröðunina alveg klára. Hér er ekkert hik. Hér er engin nefnd sett niður. Hér er ekkert verið að agnúast út í neinar skammstafanir sem kvarta yfir framgöngu ríkisstjórnarinnar. Ó nei, hér er haldið áfram á fullri ferð.

Við gáfum ríkisstjórninni tækifæri til að bæta málið og mæta sannanlega vandkvæðum minni útgerðanna. Við komum með raunverulega úrlausn í því efni. Henni var hafnað, (Forseti hringir.) vegna þess að ásetningurinn var svo einbeittur. Nú í dag (Forseti hringir.) tókst okkur að stöðva viðbótina þegar með kvöldkaffinu (Forseti hringir.) í gærkvöldi (Forseti hringir.) átti að koma með viðbótargjafir. (SII: Sumargjöf ríkisstjórnarinnar.)