142. löggjafarþing — 23. fundur,  4. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[23:45]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér finnst það aumkunarvert hvernig sumir fara með vald sitt. Mér finnst það sorglegt. Að sjá forgangsröðun ríkisstjórnarinnar núna er líka aumkunarvert. (BirgJ: Heyr, heyr.) Þessar tugmilljarðalækkanir á veiðigjöldum eru ekki til marks um mikinn sáttahug við þjóðina um sjávarútveg landsins. Það hafa yfir 35 þús. manns skrifað undir mótmæli við lækkun á veiðigjaldi. (HöskÞ: Tugmilljóna.) Stjórnvöld hunsa það algjörlega og segja stríði á hendur réttlætiskennd landsmanna. Það væri hægt að nýta þessa fjármuni til að styðja við þá hópa sem verst hafa í þjóðfélaginu. Það er hræsni að tala eins og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra talar. Það er ljótur leikur að tala svona við þjóðina og lofa og lofa en þegar til stykkisins er komið eru það bara svik við þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu, en stórútgerðinni, sem á ekki salt í grautinn, henni er hampað. (Gripið fram í: Kjaftæði. ) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)