142. löggjafarþing — 23. fundur,  5. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[00:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég styð þetta mál. Ég tel að nefndin hafi unnið gott verk. Hún þurfti að fást við ýmis álitamál eins og t.d. það sem kom upp í dag hvort einstakar tegundir stæðu einfaldlega undir veiðigjaldi. Ég tel að nefndin hafi komist að réttri niðurstöðu í tilfelli kolmunnans, að það ætti við um hann að verulega vafasamt væri hvort hann gerði það. Nú hefur sú tillaga verið dregin til baka til þess að við gætum lokið þingstörfum, en vinnan heldur áfram, skoðunin heldur áfram. Þá hljóta jafnframt fleiri tegundir að koma til skoðunar, aðrar tegundir sem mikill vafi er um að standi undir því gjaldi sem hér verið að greiða atkvæði um.

Mér finnst þetta sumarþing ekki gefa góðar vonir um það sem er fram undan í málefnalegri umræðu um það hvernig við nálgumst gjaldtöku af greinum sem njóta forgangs til nýtingar á sameiginlegum auðlindum og eru takmarkaðar þannig að við (Forseti hringir.) þróum kerfi til að nálgast auðlindarentuna.