142. löggjafarþing — 23. fundur,  5. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[00:14]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er núna ljós. Við sjáum að ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir standa einhuga að baki þessari sumargjöf. Hitt ætla ég að segja að mér finnst það svolítið skrýtinn bragur á þessari atkvæðagreiðslu að hér komi ráðherrar með útásetningar, skens og gildishlaðnar yfirlýsingar um gæði umræðu sem hvorugur þeirra hefur látið svo lítið að sýna sig í.

Við höfum staðið hér í efnisríkri umræðu um veiðigjöld í vikunni og þessir háu herrar hafa ekki einu sinni haft fyrir því að mæta í þingsalinn en koma nú og telja sig þess umkomna að gefa okkur og umræðunni sem hér fer fram einkunn. Ég vil bara biðja menn í fullri vinsemd um að hemja sig í steigurlætinu og eiga málefnalega umræðu við okkur um veiðigjöld. Hér hefur verið rætt nefnilega af miklu viti í langri umræðu (Forseti hringir.) um veiðigjöld og grunn þeirra. Það er eðlilegt (Gripið fram í.) og fullkomlega málefnalegt. (Forseti hringir.)