142. löggjafarþing — 23. fundur,  5. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[00:19]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Í þessari umræðu höfum við orðið vör við ótrúlega hatursfulla umræðu í garð einnar atvinnugreinar, undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar og þeirra sem starfa í þeirri grein. Á hverju byggist sú hatursfulla umræða? Jú, á upphrópunum um að með því að lækka gjöld á þessa grein, eða réttara sagt að leiðrétta þau í sumum tilvikum, sé verið að færa gjafir, sé verið að færa mönnum, sem eru svo uppnefndir, gjafir. Hvers vegna var ekki veiðigjaldið bara 10 milljörðum hærra á hverju ári undanfarin ár? Var þá verið að gefa 10 milljarða á hverju ári á síðasta kjörtímabili? Eða voru menn búnir að hitta á (Gripið fram í.) akkúrat rétta jafnvægið í gjaldtökunni? [Frammíköll í þingsal.] Nei, það er ekkert sem bendir til að það hafi verið, vegna þess að við sjáum að nú er …

Virðulegur forseti. Er hægt að ræða þetta mál án þess að verða fyrir stöðugum upphrópunum úr þingsal? [Frammíköll í þingsal.]

(Forseti (EKG): Hæstv. forsætisráðherra hefur orðið.)

Augljóslega var ekki búið að finna jafnvægi vegna þess að eins og kerfið var var verið að setja fyrirtæki í þrot. Sum fyrirtæki, ekki hvað síst minni fyrirtæki, voru látin borga meira en nam öllum hagnaði. Það sem átti að leysa þetta af hólmi var óframkvæmanlegt veiðigjald. (Forseti hringir.) Þegar menn reyna að leiðrétta þetta til eins árs, bjarga klúðri (Forseti hringir.) síðustu ríkisstjórnar, sæta menn endalausum upphrópunum sem minna helst (Forseti hringir.) á ofsafengna orðræðu millistríðsáranna. Þetta er óásættanleg umræða um undirstöðuatvinnugrein (Forseti hringir.) þjóðarinnar.