142. löggjafarþing — 24. fundur,  5. júlí 2013.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins.

[00:58]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tók þátt í samtölum við þingflokksformenn stjórnarflokkanna um þetta mál. Það er rétt að fyrir mína hönd gerði ég ekkert samkomulag við forsætisráðherra þannig að hann hefur ekki svikið neitt samkomulag við mig um þetta mál. En það var gert samkomulag og það var forsendan fyrir því að frumvarpið yrði afgreitt með þeim hætti sem gert var. Það var forsendan fyrir því að málið gekk hér til lokaafgreiðslu eins og gert var vegna þess að við höfðum vissu fyrir því og orð þingflokksformanna stjórnarflokkanna og formanns allsherjar- og menntamálanefndar fyrir því að fyrirkomulagið yrði með þeim hætti að tveir viðbótarstjórnarmenn skiptust milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Þegar kemur síðan í ljós að það samkomulag heldur ekki hlýtur maður að spyrja: Hvað veldur? Hver er það sem kippti í spottana? Einhver kippti í spotta. Það hljóta að vera formenn stjórnarflokkanna sem gerðu það, formaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Framsóknarflokksins, (Forseti hringir.) annar hvor eða báðir. Það eru ekki miklir menn sem gera (Forseti hringir.) félaga sína að ómerkingum með þeim hætti sem þeir hafa gert í dag. (BirgJ: Vísa svo á hvor annan, það er enn ómerkilegra.)