142. löggjafarþing — 24. fundur,  5. júlí 2013.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins.

[01:04]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það kemur manni í opna skjöldu að til þessara kosninga skuli þurfa að koma. Mér finnst þetta mál aðeins snúast um eitt: Getum við átt hér samskipti og forustufólk okkar, formenn þingflokka, formenn þingnefnda, eftir atvikum formenn flokka, og að orð standi? Þannig var það nú lengi á þessum vinnustað (Gripið fram í: Þú þekkir það nú.) að orð stóðu eða handtök og það þurfti ekki að vera skrifað á blað. Menn gerðu það sem kallað var stundum gluggasamkomulag og það stóð (Gripið fram í.) og menn lögðu metnað sinn í það, forustumenn flokka, [Kliður í þingsal.] að orð stæðu til að hægt væri að vinna hér (Forseti hringir.) saman á þeim grunni. (Gripið fram í.)

Ég hlustaði á formann allsherjar- og menntamálanefndar lýsa því að samkomulag væri um að fjölga í stjórninni og að stjórn og stjórnarandstaða mundu skipta þeim tveim viðbótarmönnum á milli sín. Það sárgrætilega er að síðan lýkur umræðu um málið og það lokast inni og verður að lögum án þess að hægt sé að láta þessa fjölgun ganga til baka úr því samkomulagið var svikið, því að það er absúrd að fjölga í stjórninni, setja tvo menn í viðbót(Forseti hringir.) á laun frá ríkisstjórnarflokkunum þannig að (Forseti hringir.) þeir geti hert tökin á Ríkisútvarpinu á (Forseti hringir.) grundvelli þess að hafa svikið samkomulag. (Gripið fram í: Píratar eiga bara ekkert mann …)