142. löggjafarþing — 24. fundur,  5. júlí 2013.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins.

[01:11]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í mínum huga snýst þessi uppákoma fyrst og fremst um það að við viljum byggja hér upp andrúmsloft þar sem lágmarkstraust er fyrir hendi. Það er gríðarlega mikilvægt að það sé hægt að eiga samskipti þar sem menn treysta því sem sagt er. Ég veit að hv. þingflokksformenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru sama sinnis og ég trúi því að þær séu það.

Þess vegna er það alvarlegast við uppákomuna í dag að stjórnarmeirihlutinn sem slíkur hefur gengið á bak orða sinna. Ég árétta að hér eru tveir listar í kjöri þar sem stjórnarminnihlutinn leggur til fjögur nöfn í samræmi við það samkomulag sem var hér fyrir hendi. Sá listi er merktur B í leynilegri atkvæðagreiðslu þar sem reynir á afstöðu hvers einasta þingmanns til þess hvort orð skuli standa.